Það vantar hjúkrunarfræðinga á Patreksfjörð og lækna á Ísafjörð

Heilbrigðisráðuneytið minnir enn á bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Þörf er á fleira heilbrigðisstarfsfólki á skrá sem hefur aðstæður til að veita liðsinni til að mæta vaxandi álagi á heilbrigðisstofnunum vegna fjölgunar Covid-19 smita. Annars vegar hefur innlögnum vegna Covid fjölgað nokkuð síðustu daga en það eru ekki síður forföll starfsfólks sem valda mönnunarvanda.

Að sögn Gylfa Ólafssonar hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er enginn starfandi þar úr bakvarðasveit og það úrræði hefur ekki verið notað nema í tímabundnum neyðartilvikum, síðast í apríl 2020.

Það breytir því hins vegar ekki að við erum alltaf með afleysingafólk í styttri og lengri tíma á hinum ýmsu deildum.

Aðspurður um starfsmannamál almennt sagði hann að það væru helst þrjár starfsstéttir sem vantaði og hefur vantað um talsverða hríð, það er hjúkrunarfræðinga, sérstaklega á Patreksfjörð, lækna á Ísafjörð og sálfræðing fyrri stofnunina.

Læknaskortur á Ísafirði veldur því að nokkur bið getur verið eftir tíma, sérstaklega ef óskað er eftir ákveðnum lækni.

Rétt er að taka fram að skortur á læknum er ekki einskorðaður við Ísafjörð eða Vestfirði og unnið er að lausn vandans með ýmsum leiðum innan stofnunar og á landinu í heild sagði Gylfi.

DEILA