Um sláturhús og fiskeldi

Umræða um fyrirhugað laxasláturhús á Vestfjörðum hefur verið nokkur og komið fram sjálfsögð krafa frá íbúum Ísafjarðarbæjar um að skýra frá aðkomu sveitarfélagsins að því máli. Ég taldi því rétt að rita þessa grein og skýra frá helstu atriðum eins og þau snúa við mér.

Þann 23. maí 2021 eru áform Arctic Fish og Arnarlax um mögulega uppbyggingu á sláturhúsi

á Flateyri fyrst kynnt í bæjarráði. Bæjarstjóra er þá falið að taka saman gögn og upplýsingar

vegna málsins og leggja fyrir á næsta fund sem var þann 1. júní. Hafnarstjóri mætir á þann

fund ásamt sviðsstjóra umhverfis og eignasviðs. Drög að minnisblaði bæjarstjóra voru kynnt

og málinu vísað til bæjarstjórnar til afgreiðslu. Einnig lagði bæjarráð til, að hafnarstjórn taki

afstöðu til þeirra liða í minnisblaðinu sem snúa að hafnarmálum. Á fundi bæjarstjórnar þann 3. Júní var bæjarstjóra svo falið að ganga til viðræðna við Arctic Fish og Arnarlax á grundvelli fyrrnefnds minnisblaðs.

Vinna við málið hélt svo áfram meðal starfsmanna sveitarfélagsins í formi, funda og samtals við hagsmunaaðila allt sumarið og fram eftir hausti. Framvinda málsins var kynnt reglulega fyrir bæjarráði og fulltrúar þess kallaðir inn á nokkra fundi með forsvarsmönnum Arctic Fish og Arnarlax.

Það kom fulltrúum minnihlutans því mjög óvart þegar sögur fóru á kreik um mögulega

uppbyggingu sláturhúss í Bolungarvík í upphafi árs. Við fengum það svo staðfest um svipað leyti og fréttir birtust í fjölmiðlum um kaup Arctic Fish á húsnæði í Bolungarvík undir sláturhús. Undirrituð óskaði því eftir að forsvarsmenn Arctic Fish kæmu til fundar við bæjarráð til að ræða um fyrirhuguð áform þeirra um uppbyggingu og hvað var þess valdandi að áform um

uppbyggingu á Flateyri breyttust. Einnig fannst mér mikilvægt að koma því til skila að þessi

niðurstaða væri vonbrigði fyrir Ísafjarðarbæ.

Fram kom í máli forsvarsmanns Arctic Fish að nokkrar ástæður voru fyrir breyttum áherslum, og finnst mér rétt að þeir skýri frá þeim sjálfir.

Það eru að sjálfsögðu vonbrigði að ekki varð af byggingu sláturhúss í sveitarfélaginu. Því má ekki gleyma að í dag er Arctic Fish með töluverða starfsemi í Ísafjarðarbæ, t.d. tengda fiskeldinu í Dýrafirði og á skrifstofunni á Ísafirði. Forsvarsmenn Arctic Fish hafa lýst yfir áhuga á frekari uppbyggingu í Ísafjarðarbæ í framtíðinni, enda eiga þeir fasteign á Flateyri og hafa fengið úthlutaðri lóð á nýja hafnarkantinum á Suðurtanga.

Það má velta upp þeirri spurning hvort skort hafi pólitíska forystu í þessu máli? Við yfirferð gagna og málshraða er ekkert sem bendir til annars en að málið hafi fengið réttláta og eðlilega afgreiðslu innan stjórnsýslunnar, en fram hefur komið að það voru ákveðin vandkvæði við að staðsetja sláturhúsið á Flateyri.

Næstu skref

Útlit er fyrir að uppbygging í kringum fiskeldi verði mikil næstu árin á Vestfjörðum. Fyrirhuguð uppbygging á sláturhúsi á Suðureyri var kynnt fyrir bæjarfulltrúum eins og lesa má um í þessari grein á BB https://www.bb.is/2021/11/stadsetning-laxaslaturhuss-horfum-til-sudureyrar/.

Atvinnuuppbygging í fiskeldi er ekki aðeins í kringum sláturhús og fiskeldiskvíar, því fylgja einnig ýmis afleidd störf. Mikilvægt er að tryggja að þekking, rannsóknir og tækninýjungar verði til á svæðinu og þá skiptir nálægð við Menntaskólann á Ísafirði og Háskólasetur Vestfjarða miklu máli.

Norðursvæði Vestfjarða er eitt atvinnusvæði. Við þurfum að efla það og styrkja með því að skapa störf sem eru eftirsóknarverð og sem tala inn í framtíðina. Með samvinnu

og samstarfi sveitarfélaganna þriggja verður norðursvæði Vestfjarða eftirsóknarverður

búsetukostur. Langtíma hagsmunir þessarra sveitarfélaga fara saman, þó svo að hagsmunir til

skamms tíma geti blint mönnum sýn. Öll sveitarfélögin sex þar sem fiskeldi er stundað hafa t.d skrifað undir Samfélagssáttmála um fiskeldi. Þar sammælast sveitarfélögin um sameiginlega hagsmunagæslu í málefnum fiskeldis, enda er það sameiginlegt hagsmunamál okkar allra.

Það mun verða samkeppni milli sveitarfélaga um staðsetningu sláturhúsa á meðan lagaramminn er þannig að gjaldtaka er í formi aflagjalda sem í raun er gjaldtaka sniðin að hefðbundnum sjávarútvegi. Á meðan sveitarfélögin fá ekkert fyrir afnot af fjörðum og önnur afnot af höfnum en „löndun afla“ verður slík samkeppni til staðar. Jafnframt verður þessi samkeppni til staðar á meðan Fiskeldissjóður er settur upp sem samkeppnissjóðurí stað þess að verða tekjustofn fyrir sveitarfélög þar sem fiskeldi er stundað. Sveitarfélögin á svæðinu og samfélagið allt þarf að standa saman að því að fá lagaumgjörð vegna fiskeldis breytt þannig að allt samfélagið á Vestfjörðum njóti góðs af þeirri miklu uppbyggingu sem nú stendur yfir. Það er nefnilega nóg til skiptanna.

Nanný Arna Guðmundsdóttir,

bæjarfulltrúi Ísafjarðarbæ

DEILA