Staðsetning laxasláturhúss: horfum til Suðureyrar

Suðureyri vorið 2020. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Talsverð umræða hefur orðið um byggingu sameiginlegs laxasláturhúss og vinnslu á Vestfjörðum og hefur komið fram í fréttum að stóru laxeldisfyrirtækin hafi horft til Flateyrar í því sambandi. Forsvarsmenn IS47 telja aðra möguleika betri og að horft hafi verið framhjá besta kostinum; Suðureyri við Súgandafjörð.

Forráðamenn Arnarlax og Arctic Fish hafa stefnt að sameiginlegri aðstöðu, þar sem sláturhús Arnarlax á Bíldudal er að verða of lítið og hafa horft til Flateyrar með framtíðaráform sín. Þrátt fyrir að flest gögn málsins hafi verið flokkuð sem trúnaðarmál og erfitt hafi reynst að fá nauðsynlegar upplýsingar, þar sem hvorki hefur verið haldin kynning um málið né umsagna leitað, t.d. til forsvarsmanna IS47 um nýja sláturhúsið, er ljóst að slík uppbygging myndi með klárum hætti ógna öllum framtíðaráformum um uppbyggingu vistvæns eldis í Önundarfirði.  IS47 hefur opinberlega lýst yfir áformum um áframhaldandi fjárfestingu í Önundafirði og stefnt á að minnsta kosti 2.500 t. lífrænu eldi á laxi eða regnbogasilung sem myndi skapa tugi beinna starfa og ótalinna óbeinna og því ljóst að það yrði mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf á Flateyri. Horft er til lífræns eldis þar sem slík framleiðsla mun höfða frekar til neytenda framtíðarinnar. Öflug fyrirtæki í greininni s.s frá Færeyjum, Skotlandi og Írlandi hafa fetað sig inn á þessar brautir og má greina að fyrirtækin séu að reka lífrænt eldi á betri afkomu en hefðbundinni starfsemi en það hlýst af hærri söluverðum á afurðunum. 

Forsvarsmenn IS47 hafa bent á að það hefði alvarlegar afleiðingar og andstætt öllum varúðaraðgerðum gegn sjúkdómum að stunda stórflutninga á fiski frá öðrum eldissvæðum inn á þetta svæði og raunar benti Arctic Fish á það sjálft í erindi til Ísafjarðarbæjar á síðasta ári, en þar sagði:

Varðandi líffræðilegu áhættuna þá er það lykilforsenda að fiskur sem er að koma frá öðrum eldissvæðum með brunnbátum fari siglingaleið sem virði 5km fjarlægðarmörk við eldisstaðsetningu og eldissvæði.“  ÍS 47 tekur heilshugar undir þetta með Artic Fish.

Þá má benda á nýlegar fréttir af laxaveiru í sjókvíaleldi en slíkt ætti að vera áminning um mikilvægi þess að öllum viðmiðum  og reglum er lúta að takmörkunum á flutningum milli eldissvæða sé fylgt í hvívetna.

Þegar forráðamenn Arnarlax og Arctic Fish hófu könnun á heppilegri staðsetningu, virðist fjótlega hafa verið staðnæmst við Flateyri, þrátt fyrir fjölmarga ágalla, en þá er horft til vinnuafls, vegasamgangna, húsnæðismála, hafnaraðstöðu, snjóflóðavarna, auk áðurnefnds stórflutnings um önnur eldissvæði. Forsvarsmenn IS47 fengu óháðan aðila til að skoða málið og horfa m.a. til þess að lágmarka líffræðilega áhættu og hindra dreifingu sjúkdóma og sníkjudýra. Þá var jafnframt horft til þess að önnur eldisfyrirtæki hafa gefið fyrirheit um umverfisvæna nálgun og sum hver að þau stefni á líffrænt eldi, s.s í Ísafjarðardjúpi. 

Á norðanverðum vestjörðum er Súgandafjörður eini kosturinn sem býður upp á þá nálgun að eldi, slátrun og flutningar á milli eldissvæða séu aðskild.  IS47 leitaði samstarfs við heimamenn um að greina kosti Suðureyrar við Súganda sem staðarval undir slíkan rekstur og úr varð samstarfsverkefni nokkurra fyrirtækja um slíka úttekt.  Niðurstöðurnar virðast á þann veg að allt bendi til þess að Suðureyri sé rétta staðsetningin. Sjúkdómahætta ekki fyrir hendi, lóð undir starfsemina er bæði klár og deiliskipulögð, innviðir á borð við vatn og rafmagn eru góðir, vegasamgöngur nokkuð traustar og mikil starfsemi kringum sjávarútveg þar sem starfsfólk, byggingar, tæki og tól gætu samnýst. Starfsemi sem þessi gæti einmitt verið forsenda fyrir uppbyggingu lóðar, fyllingu, hafnaraðstöðu og fleira þess háttar, sem gert uppbyggingu annarrar starfsemi sem byggja á áðurnefndum innviðum. Svo virðist, með fyrirvörum um endanlega úttekt, að hægt sé hefja framkvæmdir strax og ný vinnsla á öflugu athafnarsvæði og hafnaraðstöðu geti verið komin í rekstur innan þess tímaramma sem bæði Arnarlax og Arctic Fish hafa óskað eftir.

Forsvarsmenn IS47 funduðu í dag með bæjaryfirvöldum á Ísafirði þar sem þessar niðurstöður voru kynntar og vonast er til að yfirvöld sjái að hag allra er best borgið með uppbyggingu á Suðureyri, en ekki Flateyri.  Arctic Fish hefur frá því fyrr i haust verið haldið upplýst um viðkomandi úttekt varðandi Suðureyri og fengið kynningu á niðurstöðum.  Vonast aðilar að skýrslunni að samráð verði haft að leiðarljósi enda um mikla hagsmuni allra aðila að ræða. Mikilvægt er að horft sé til heildarhagsmuna Vestfjarða, bæði í nútíð og framtíð, og besti kosturinn verði fyrir valinu – besti kosturinn fyrir alla.

Fisherman

Klofningur

Íslandssaga

IS47

Hábrún

Íslensk Verðbréf

DEILA