MERKIR ÍSLENDINGAR – SKÚLI THORODDSEN

Skúli Thoroddsen sýslumaður og alþm.fæddist á Haga á Barðaströnd 6. janúar 1859, sonur Jóns Thoroddsen, skálds og sýslumanns, og k.h., Kristínar Ólínu Þorvaldsdóttur húsfreyju.

Skúli var einn af fjórum Thoroddsenbræðrum sem misstu föður sinn ungir frá skuldugu búi hans en komust þó allir til mennta vegna seiglu móður sinnar og með góðri hjálp frá mági hennar, Jóni Árnasyni þjóðsagnasafnara. Hinir bræðurnir sem allir urðu þjóðþekktir, hver á sínu sviði og komust í góðar álnir, voru Þorvaldur, dr.phil. náttúrufræðingur í Reykjavík og Kaupmannahöfn; Þórður, læknir og alþm. í Keflavík og Reykjavík, faðir Emils tónskálds, og Sigurður, landsverkfræðingur og yfirkennari Menntaskólans, faðir Gunnars Thoroddsen forsætisráðherra.

Eiginkona Skúla var Theodóra Thoroddsen skáldkona og er frá þeim kominn fjöldi alþm. og annarra þjóðþekktra einstaklinga.

Börn þeirra: Unnur (1885), Guðmundur (1887), Þorvaldur (1888), Skúli (1890), Þorvaldur (1892), Kristín Ólína (1894), Katrín (1896), Jón (1898), Ragnhildur (1899), Bolli (1901), Sigurður (1902), Sverrir (1904), María Kristín (1906)

Skúli lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1879 og embættisprófi í lögfræði frá Hafnarháskóla 1884. Hann varð bæjarfógeti og sýslumaður á Ísafirði 1884, var vikið frá um stundarsakir vegna Skúlamálsins svo kallaða 1892 sem að upphafi var vegna mannsláts á Klofningsheiði milli Önundarfjarðar og Súgandafjarðar. Skúli fékk lausn frá störfum á eftirlaunum þremur árum síðar.

Skúli rak verslun á Ísafirði 1895-1915, var kaupfélagsstjóri Kaupfélags Ísfirðinga 1888-1901, stofnaði og var ritstjóri Þjóðviljans frá 1886, var sjálfseignarbóndi og starfrækti prentsmiðju á Bessastöðum á Álftanesi 1901-1908 en var búsettur í Reykjavík frá 1908.

Skúli var alþm. Eyfirðinga 1890-92, Ísafjarðarkaupstaðar 1892-1903 og Norður-Ísafjarðarsýslu 1903-1916 og forseti Sameinaðs Alþingis 1909-11. Hann var í hópi áhrifamestu stjórnmálamanna Heimastjórnartímabilsins, eindreginn málsvari Landvarnarmanna og sjálfstæðismanna eldri og sá fulltrúi Sambandslaganefndarinnar 1907 sem hafnaði Uppkastinu sem þjóðin síðan hafnaði í sögulegum kosningum 1908.

Skúli lést 21. maí 1916.

.

.

Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA