Samkvæmt villidýralögum má aðeins veiða hagamýs innandyra

Nú berast víða af landinu fréttir um óvanalega mikinn músagang í húsum.

Matvælastofnun vill af því tilefni ítreka ábendingar frá 2017 sem fjallaði um föngun og aflífun meindýra.

Stofnunin vill sérstaklega árétta að notkun límbakka og drekkingargildra brjóta gegn ákvæðum laga um velferð dýra.

Sömuleiðis er rétt að benda á að samkvæmt villidýralögum má aðeins veiða hagamýs innandyra. Því er óheimilt að bera út eitur eða nota músagildrur fyrir hagamýs utanhúss.

Vandaðar felligildrur tryggja yfirleitt skjóta aflífun með sem minnstum sársauka en lykilatriði er að vitja þeirra daglega, bæði til að aflífa þau dýr sem e.t.v. lentu ekki rétt í gildrunni og til að ganga úr skugga um að hún sé virk.

Svokölluð músahótel, einnig af sumum kallaðar „lífgildrur“, eru gildrur sem miða að því að fanga mýsnar án þess að valda þeim skaða. Með slíkum gildrum þarf einnig að hafa daglegt eftirlit til að aflífa mannúðlega þær mýs sem þar lenda (t.d. með kröftugu höfuðhöggi) eða sleppa þeim lifandi út.  Það brýtur í bága við lög um velferð dýra að láta mýs vera lengi í slíkri gildru og jafnvel svelta í hel.

DEILA