Merkir Íslendingar – Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn fæddist á Tjörn í Svarfaðardal 6. desember 1916.

Foreldrar hans voru Þórarinn Kristjánsson Eldjárn, bóndi og kennari á Tjörn, og k.h., Sigrún Sigurhjartardóttir húsfreyja.

Eiginkona Kristjáns var Halldóra Eldjárn, fædd á Ísafirði þann 24.11. 1923, d. 21.12. 2008, húsfreyja og forsetafrú.

Börn þeirra eru:

Ólöf Eldjárn, ritstjóri og þýðandi, Þórarinn Eldjárn, skáld og rithöfundur, Sigrún Eldjárn, rithöfundur og myndlistarmaður, og Ingólfur Árni Eldjárn, tannlæknir.

Kristján lauk stúdentsprófi frá MA 1936, stundaði nám í fornleifafræði við Kaupmannahafnarháskóla 1936-39, lauk meistaraprófi í íslenskum fræðum frá HÍ 1944 og doktorspróf þaðan 1957 en doktorsritgerð hans fjallaði um kuml og haugfé í fornum sið á Íslandi.

Kristján var afkastamikill höfundur um fornleifar og fornleifarannsóknir á Íslandi. Meðal rita hans eru Gengið á reka, 1948; Stakir steinar, 1959; Hundrað ár í Þjóðminjasafni, 1962, og Hagleiksverk Hjálmars í Bólu, 1975. Auk þess hafði hann umsjón með vinsælum sjónvarpsþáttum, Munir og minjar, á upphafsárum ríkissjónvarpsins.

Kristján var kennari við MA og Stýrimannaskólann um skeið, varð safnvörður við Þjóðminjasafn Íslands 1945, var skipaður þjóðminjavörður 1947 og gegndi því embætti þar til hann var kjörinn þriðji forseti íslenska lýðveldisins 30.6. 1968. Hann var endurkjörinn án atkvæðagreiðslu 1972 og 1976 en lét af embætti árið 1980.

Kristján var merkur fræðimaður, virtur og vinsæll forseti, alþýðlegur í fasi og einstakt prúðmenni. Hann sýndi festu og stillingu á erfiðum stjórnarkrepputímum sem mæddu mjög á embætti hans um skeið, var skemmtilegur í viðkynningu og prýðilega hagmæltur eins og sonur hans og þeir frændur ýmsir úr Svarfaðardalnum. Hann var heiðursdoktor við háskólana í Aberdeen, Lundi, Odense, Bergen, Leningrad og Leeds.

Kristján lést þann 14. september 1982.


 
Skráð af Menningar-Bakki.
DEILA