Veiðar á landsel áfram takmarkaðar

Landselur. Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir.

Hafrannsóknastofnun leggur til að beinar veiðar á landsel verði áfram takmarkaðar og að gripið verði til frekari aðgerða til að draga úr meðafla landsels við netaveiðar, til að stuðla að því að stofnstærð nái aftur markmiðum stjórnvalda.

Jafnframt leggur stofnunin til að reynt verði að takmarka möguleg truflandi áhrif af athöfnum manna á landsel, sérstaklega mánuðina maí til ágúst þegar kæping og háraskipti eiga sér stað.

Ráðgjöf byggir á mati á stærð landselsstofnsins við Ísland sem Hafrannsóknastofnun, í samvinnu við Selasetur Íslands, hefur nýlega lokið vinnu við. Matið byggir á talningum sem fram fóru sumarið 2020.

Samkvæmt matinu er stofninn um 10,300 dýr sem er 69% færri dýr en árið 1980 þegar fyrstu talningar fóru fram.

DEILA