Skáldsaga um Djúpið

Rithöfundurinn Benný Sif Ísleifsdóttir hefur gefið út nýja skáldsögu sem nefnist Djúpið.

Í fréttatilkynningu frá Máli og menningu segir um bókina:

„Árið er 1975 og byggðin er brothætt við Djúp. Ungt vísindafólk er ráðið til starfa hjá Búseturöskun ríkisins í þeim tilgangi að efla mannlíf og atvinnu í samstarfi við heimamenn. Líffræðineminn Valborg er á heimavelli yfir skólabókunum en langt frá því að dúxa í mannlegum samskiptum. Í heimavistarskóla Djúpmanna rekst hún á veruleika þar sem hlutverk konunnar er að hella upp á kaffi og stjana við karlana, sem taka allar ákvarðanir þótt svo eigi að heita að nú sé kvennaár. Sumardvölin fyrir vestan leiðir í ljós að manneskjan er ekki síður brothætt en byggðin og innra með henni eru ókönnuð djúp.“

Benný Sif Ísleifsdóttir hefur skrifað skáldsögur um íslenskar alþýðukonur sem stöðugt þurfa að berjast fyrir samastað í tilverunni. Hansdætur var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins og Gríma hlaut Íslensku hljóðbókaverðlaunin.


DEILA