Merkir Íslendingar – Ásgeir Blöndal Magnússon

Ásgeir Blöndal Magnússon fæddist í Tungu í Kúluþorpi í Arnarfirði 2. nóvember 1909. Foreldrar hans voru Magnús Sigurðsson, sjómaður og verkamaður í Tungu, og k.h., Lovísa Halldóra Friðriksdóttir, húsfreyja í Tungu

Ásgeir var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Sigríður Sigurhjartardóttir sem lést 1951 og eignuðust þau þrjá syni, Jóhann múrarameistara, Magnús húsasmíðameistara og Sigurð tæknifræðing. Seinni kona Ásgeirs var Njóla Jónsdóttir húsfreyja.

Ásgeir stundaði nám við MA 1926-30 en var vikið úr skóla vegna frægrar, pólitískrar greinar sem hann skrifaði í Rétt, árið 1930, sem bar heitið Hreyfing íslenskrar öreigaæsku. Hann vann síðan verkamannavinnu, var á síld á sumrin, stundaði einkakennslu á veturna, var afgreiðslumaður Verkalýðsblaðsins og kenndi við flokksskóla Sósíalistaflokksins í Reykjavík.

Ásgeir lauk síðan stúdentsprófi utanskóla 1942, stundaði nám við Lenínháskólann í Sovétríkjunum 1937-38 og lauk cand.mag.-prófi í íslenskum fræðum við HÍ 1945.

Ásgeir varð starfsmaður við Orðabók Háskóla Íslands, var orðabókarritstjóri 1947-78 og var þá settur forstöðumaður verksins, orðabókarstjóri, en lét af störfum fyrir aldurs sakir í árslok 1979. Auk þess sinnti hann stundakennslu við HÍ í gotnesku, germanskri samanburðarmálfræði og í íslenskri málfræði. Síðustu árin vann hann að samningu orðsifjabókar og lauk frágangi á henni daginn áður en hann lést.

Ásgeir var formaður Félags ungra kommúnista á sínum yngri árum, starfaði í Kommúnistaflokki Íslands og sat í miðstjórn Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokksins, og Alþýðubandalagsins. Hann sat í stjórn Bókasafns Kópavogs 1957-70 og hafði umsjón með þættinum Íslenskt mál í Ríkisútvarpinu í 30 ár.

Ásgeir var félagi í Vísindafélagi Íslendinga frá 1969 og heiðursdoktor við heimspekideild HÍ.

Ásgeir lést 25. júlí 1987.

Morgunblaðið 2. nóvember 2016.

DEILA