Jólahefðir Íslendinga

Botnsúlur.

Jólahefðir Íslendinga eru margar og eru oft sannarlega mismunandi eftir landshlutum, jafnvel sveitum jafnvel þó sveitir liggi nærri hver annarri. Margar hefðir hafa þó smitast um landið ef þannig má að orði komast.

Ég kynnti mér á sínum tíma mismunandi jólahefðir eftir búsetu, hvar viðkomandi ólst upp og hvað sumum þykir ómissandi sem öðrum finnst vægast sagt ekki jólalegt.

Flestar heimildir eru eftir samræður við heimamenn og mikið afskaplega átti ég mörg skemmtileg samtöl við að safna þessu saman.

Ég ákvað að byrja á Vesturlandi og tíni svo til fleiri greinar á aðventunni frá fleiri stöðum á landinu.

Sveitasiðirnir á Vesturlandi

Þessa hefð hef ég heyrt frá þónokkrum stöðum á landinu en elsta heimildin mín er úr Borgarfirði. Jólin eru að sjálfsögðu samofin íslenskum þjóðsögum og hjátrú þótt um kristna hátíð sé að ræða.

Þessi hefð heillaði mig sérstaklega en það var eldri bóndi í Borgarfirði sem sagði mér frá henni en á bæ hans hefur þessi hefð í það minnsta verið til staðar síðan langafi téðs bónda hóf búskap þar um miðja nítjándu öld.

Á bæ þessum er álfasteinn og eins og alþjóð veit borgar sig að lifa í sátt og samlyndi við álfana ef vel á að ganga. Því er hefðin á þessum bæ að á hverju aðfangadagskvöldi fer bóndinn út með disk af jólakrásunum til að færa álfunum. Ekki fylgdi sögunni hvort álfarnir þiggja matinn en sögunni fylgdi að búskapurinn hefur ávallt gengið vel og álfarnir engann usla gert.

Eftir samræður mínar við þennan bónda hef ég minnst á þessa hefð á hinum ýmsu stöðum á landinu og þessi hefð virðist vera við lýði á fleiri stöðum en virðast ekki ná jafnlangt aftur og á þessum bæ í Borgarfirði. Án efa er hægt að finna heimildir um þessa hefð sem nær lengra aftur.

Í næsta nágrenni Borgarfjarðar í Hvalfirði og sjálfsagt á fleiri stöðum, það vill bara svo til að ég þekki einstaklega vel til í Hvalfirði er sú hefð að búfénaðurinn gengur fyrir klukkan sex á aðfangadagskvöld þegar jólin eru hringd inn, þá er valið besta heyið og búfénaði gefið áður en mannfólkið sest til veisluborðsins. Búfénaðurinn fær því einnig sín jól.

Einnig hefur verið til siðs þar sem bændur súrsa ennþá sjálfir að halda í þá hefð að smakka til súrmatinn á aðfangadag.

Skemmtileg hefð tíðkast á Snæfellsnesi, á mörgum bæjum er haldin jóladagbók, jafnvel þó ekki sé haldin dagbók aðra daga ársins. Eru þar taldnir upp hverjir voru viðstaddir, hvað var í matinn, hver fékk möndlugjöfina (ef sú hefð er viðhöfð), hvernig veðrið var og svo framvegis. Sem sagnfræðing finnst mér þetta einstaklega skemmtileg hefð með það í huga hversu áhugavert verður að glugga í þessar bækur í framtíðinni og sjá þróunina.

Halla Lúthersdóttir

Deildartunguhver

Myndir: Halla Lúthersdóttir

DEILA