Aðalfundur Snjáfjallaseturs

Frá aðalfundinum á laugardaginn. Mynd aðsend.

Aðalfundur Snjáfjallaseturs var haldinn á laugardaginn í kaffihúsinu Drafnarfelli 18 í Reykjavík.

Í skýrslu stjórnar fyrir árin 2019 og 2020 kom fram að sumarið 2019 ráku Snjáfjallasetur og Sögumiðlun ferðaþjónustu í Dalbæ í þrjár vikur. Júlía Leví og Bergljót Aðalsteinsdóttir sáu um ferðaþjónustuna. Um verslunarmannahelgina 2019 var dagskrá með lögum og textum Ásgeirs Ingvarssonar í Dalbæ.  M.a. kom fram sönghópurinn Uppsigling undir stjórn Þorvaldar Arnar Árnasonar. Gefinn var út bæklingur með lögum og textum eftir Ásgeir Ingvarsson. Sjá nánar á vef Snjáfjallaseturs: http://snjafjallasetur.is/asgeiri.html

Sumarið 2020 var ferðaþjónusta í Dalbæ með sama sniði, í þrjár vikur. Bergljót Aðalsteinsdóttir var gestgjafi. Tónleikarnir Vökuvísur í Unaðsdal voru haldnir  sunnudaginn 12. júlí. Meðal þeirra sem fram komu voru tónlistarfólkið Kira Kira (Kristín Björk Kristjánsdóttir) og Framfari (Andri Freyr Arnarsson), Teitur Magnússon söngvaskáld, Hermigervill (Sveinbjörn Thorarensen),  Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir og fleiri. Þau tóku upp kvikmynd  og voru í Dalbæ í tæpar tvær vikur. Andri Freyr og Kristín sáu um ferðaþjónustuna í eina viku. Sett var upp lítil sýning til að minnast slysanna við Bjarnarnúp 1920. M.a. var á sýningunni póstlúður Sumarliða Brandssonar landpósts, en Sigtryggur Rósmar Eyþórsson lánaði póstlúðurinn.

Jón Gísli Jónsson, Jónas Kristján Jónasson og Þórður Halldórsson sáu um að klæða gaflinn á Dalbæ haustið 2020 með bárujárni. Þá er búið að klæða allt stærra húsið.

Styrkur fékkst frá Fjórðungssambandi Vestfjarða, haustið 2020 að upphæð kr. 800.000, með samstarfi við Byggðasafn Vestfjarða um skráningu í gagnagrunninn Sarp. Þar hefur Ólafur skráð muni undanfarið ár sem eiga uppruna á Snæfjallaströnd. Ólafur hvatti fundarmenn til að leggja fram hugmyndir að munum til skráningar. Hægt er að skoða skráninguna með því að fara inn á sarpur.is og slá inn Snjáfjallasetur í leitargluggann.

Síðla árs 2020 voru sett upp tvö skilti á Snæfjallaheiði til minningar um Sumarliða Brandsson landpóst, en 100 ár voru frá láti hans og leitarmanna í desember. Sjá nánar á vef Snjáfjallaseturs: http://snjafjallasetur.is/slysin.html.

Starfsemin 2021

Á árinu 2021 ráku Snjáfjallasetur og Sögumiðlun ferðaþjónustu í Dalbæ í þrjár vikur. Bergljót Aðalsteinsdóttir sá um ferðaþjónustuna.

Um verslunarmannahelgina voru Kaldalónstónleikar og útgáfuhóf í Dalbæ á Snæfjallaströnd. Voru tónleikarnir vel sóttir og var flytjendum vel fagnað. Hallveig Rúnarsdóttir, Hrönn Þráinsdóttir og Dúllurnar fluttu tónlist og Gunnlaugur A. Jónsson og Sigvaldi Snær Kaldalóns fluttu ávörp. Einnig var gefið út rit um Sigvalda Kaldalóns sem var kynnt við þetta tækifæri. Snjáfjallasetur stóð að viðburðinum í samstarfi við Minningarsjóð Sigvalda Kaldalóns. Jafnframt var gefið út Minningarrit um Jón Hallfreð Ingvarsson. Af því tilefni las Pálmi Gestsson kvæði eftir Jón Hallfreð Engilbertsson, en meginuppistaða ritsins er kvæði eftir hann. Einnig eru þar minningabrot eftir Engilbert S. Ingvarsson og Jóhönnu S. Ingvarsdóttur.

Í stjórn voru kosin:

Ólafur J. Engilbertsson, Friðbjört Jensdóttir, Jófríður Hanna Sigfússdóttir, Ingibjörg Kjartansdóttir, Jónas Kristján Jónasson.

Verkefnin framundan

Stefnt er að því að klæða minna húsið 2022. Þó verður að leggja verður áherslu á að klára þakskeggið og hornin á gaflinum á stærra húsinu næsta vor ásamt því að laga þakið á því, en það fór að leka síðasta sumar.

Að lokum voru ýmis mál rædd og þar á meðal hvort möguleiki væri á því að stika gönguleiðina upp frá Unaðsdal. Einnig var rætt um að merkja Dalbæ með fallegum stöfum, svipað og Steinshús. Rætt var um lit á steinkantinn neðst á stærra húsinu og var samþykkt að hafa hann í gráum lit.

DEILA