Vegagerðin: endurnýja þarf ferjumannvirki í Breiðafirði

Vegagerðin greinir frá því í gær að lagt hafi verið mat á möguleikana varðandi ferjusiglingar á Breiðafirði næstu misseri. Niðurstaðan hafi verið sú að hagkvæmast er að uppfylla núverandi samning og nota gildistíma hans til hönnunar og útboðs á hafnarmannvirkjum á Brjánslæk og í Stykkishólmi.  Ný hafnarmannvirki eru forsenda fyrir áframhaldandi ferjurekstri á Breiðafirði að mati Vegagerðarinnar. 

Fram kemur að Baldur uppfyllir þær öryggiskröfur sem eru í gildi, skipið er í notkun og flutningsgeta viðunandi, en hins vegar uppfylli skipið ekki nútíma kröfur um aðgengi og útlit.

Núverandi samningur við Sæferðir um ferjusiglingar gildir til 31. maí 2022 með möguleika á framlengingu til 31. maí 2023. 

Ítarleg leit hefur farið fram að skipi sem gæti leyst núverandi skip af á meðan verið væri að huga að framtíðarfyrirkomulagi ferjusiglinga á Breiðafirði. Ekkert skip fannst sem uppfyllti þær kröfur sem settar voru.

„Að auki þá verður ekki hjá því litið að ferjumannvirki, bæði á Brjánslæk og í Stykkishólmi eru „sérsniðin“ að gamla Baldri sem var óvenju mjótt skip og þau síðan aðlöguð að núverandi Baldri. Ljóst er að huga þarf að endurnýjun þessara mannvirkja svo þau geti annað þeirri flutningsgetu sem fyrirsjáanleg er miðað við aukna framleiðslu afurða á Vestfjörðum“ segir að lokum í tilkynningu Vegagerðarinnar. 

DEILA