Strandabyggð: hækkar skatta og sækir um fjárhagsaðstoð næstu árin

Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur samþykkt að hækka útvar og fasteignaskatt en eru þrátt fyrir það fjarri því að ná tilsettu markmiði. Óskað er eftir sérstöku 30 m.kr. fjárframlagi frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga næstu árin til þess að brúa bilið.

Á þessu ári fékk Strandabyggð 30 m.kr. framlag með samningi við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið til þess að ná endum saman. Framlagið er skilyrt því að fjárhagsleg endurskipulagning fari fram. Utanaðkomandi ráðgjafar voru fenngnir til þess að gera tillögur. Þær liggja fyrir og sveitarstjórnin ræddi þær fyrir luktum dyrum og ekkert er gefið upp um hverjar tillögurnar eru. Til þess að standast viðmið Eftirlitsnefndar sveitarfélaga (EFS) um framlegð af rekstri, þarf viðsnúning í rekstri á næsta ári sem nemur 53 milljónum króna miðað við forsendur þriggja ára áætlunar.

Sveitarstjórnin samþykkti að hækka útsvar úr 14,52% í 14,95% sem mun gefa 7,5 m.kr. auknar tekjur. Eins var samþykkt að hækka fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði um 25% eða úr 0,5% af fasteignamati í 0,625% og fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði var hækkaður úr  úr 1,51% í 1,65%. Það er áætlað að skili 6,4 m.kr. í auknar tekjur.

Þá segir í fundargerð sveitarstjórnar að þessum skattahækkunum fylgi aukið framlag úr Jöfnunarsjóði upp á 6,4 m.kr.

Þessar aðgerðir skila samtals 20,7 m.kr. upp í 53 m.kr. viðsnúning á afkomu sveitarfélagsins sem þarf að ná. Eftir standa 32 m.kr.

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti jafnframt samhljóða að óska eftir samningi um áframhaldandi stuðning frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu næstu árin, í ljósi þeirra aðgerða sem ráðist er í við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 og í takt við 83.gr sveitarstjórnarlaga (138/2011). Báðir samningsaðilar hafa þegar lýst vilja sínum um framhald á slíkum samningi.

DEILA