Framtíð fiskeldis á Íslandi

Þróun í íslensku fiskeldi hefur verið mikil á síðastliðnum áratug og má segja að algjör umskipti hafi átt sér stað. Laxeldi í sjó hefur farið frá því að vera atvinnugrein, sem nánast var búið að afskrifa sem raunhæfan valkost við íslenskar aðstæður, yfir í að vera sú grein sem margir horfa til sem helsta vaxtartækifæris í matvælaútflutningi til næstu áratuga.

Þetta er m.a. það sem kemur fram í nýrri skýrslu Íslenska sjávarklasans sem nefnist „Framtíð fiskeldis á Íslandi“.Útgáfan er studd af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Á sama tíma og tækifæri blasa við eru vaxandi áhyggjur af ekki síst umhverfisáhrifum stóraukins laxeldis. Þær áhyggjur snúa m.a. að því lífríki sem fyrir er í hafi og villta laxastofninum.

Í skýrslunni er leitast við að meta framtíðarhorfur laxeldis á Íslandi með hliðsjón af bæði umhverfis- og samkeppnissjónarmiðum. Þegar horft er til næstu ára og áratuga er ljóst að hreyfiafl breytinga getur bæði legið í tæknibreytingum, sem geta haft á samkeppnishæfni land- og sjókvíaeldis, og viðhorfum neytenda til ólíkra aðferða í eldi.

Í skýrslunni er bent á að tækifæri til fullvinnslu eldislax hér á landi eru umtalsverð en fullvinnsla af því tagi  er mjög lítil í þeim löndum sem við berum okkur saman við.  Því er miklu magni hent. Nýta má þá miklu þekkingu og nýsköpun sem er til staðar í vinnslu á hvítfiski hérlendis til að ná forystu á heimsvísu í nýtingu á eldisfiski.

Á grunni gagnaöflunar og viðtala við tugi sérfræðinga á þessu sviði jafnt í greininni sjálfri sem stjórnsýslu, umhverfissamtökum, menntasamfélagi og fjármálakerfi er dregin upp mynd af mögulegri þróun laxeldis hérlendis.

Skýrsluna má nálgast hér

DEILA