Trékyllisheiðin 2021 nýtt utanvegahlaup næsta laugardag

Trékyllisheiði er fjallvegur á milli Steingrímsfjarðar og Trékyllisvíkur á Ströndum. Leiðin yfir heiðina var greiðasta leiðin á milli þessara byggðarlaga áður en vegur var lagður meðfram snjónum norðan Bjarnarfjarðar. Heiðarleiðin er mun styttri en bílvegurinn, en liggur víðast í um 400 m hæð og er afar hrjóstrug, gróðursnauð og illviðrasöm á vetrum. Heiðin verður því sjaldan fyrir valinu sem ferðaleið ef aðrar hlýlegri standa til boða. Jeppaslóði liggur yfir heiðina, en hann er mjög seinfarinn, nema helst þegar harðfenni er yfir.

Næstkomandi laugardag stendur Skíðafélag Strandamanna fyrir utanvegarhlaupi þar sem í boði eru tvær vegalengdir, 47 km (um 1.390 m samanlögð hækkun) og 15,5 km (um 240 m hækkun).

Lengra hlaupið (47 km) hefst við félagsheimilið í Árnesi í Trékyllisvík. Þaðan er hlaupið eftir malarvegi (Þjóðvegi 643, Strandavegi) til norðvesturs, um 3 km leið. Þegar komið er fram hjá bænum Melum er beygt til vinstri inn á jeppaveg (Ófeigsfjarðarveg) sem liggur yfir Eyrarháls áleiðis í Ingólfsfjörð. Um það bil sem komið er upp á háhálsinn (um 2,2 km frá Strandavegi, um 200 m hækkun) er beygt til vinstri inn á torfæran slóða sem liggur til að byrja með í suður og suðvestur inn á Trékyllisheiði. Hlaupið er fyrir norðan fjallið Glissu og á þeim kafla er hæsti punktur hlaupsins, um 500 m.y.s. Um það leyti eru 10 km að baki. Um 7 km síðar er enn tekin vinstri beygja vestan við Reykjarfjarðarvatn og hlaupið suður með Búrfelli austanverðu nálægt brúnum inn af Reykjarfirði, m.a. yfir vatnslitlar ár sem þar eru (Mjóadalsá, Breiðadalsá og Óveiðisá). Eftir u.þ.b. 23 km hlaup eru hlaupararnir staddir upp af Kjósarhjöllum ofan við Djúpuvík. Eftir það liggur leiðin áfram til suðurs yfir hina eiginlegu Trékyllisheiði, þar sem jeppaslóðum er fylgt lengst af. Sunnantil á heiðinni, eftir u.þ.b. 33 km, liggur leiðin yfir Goðdalsá sem getur verið vatnsmikil í leysingum og í vætutíð. Vakt verður við ána til að tryggja að allir komist klakklaust yfir. Um 6 km sunnar liggur leiðin fram hjá vegamótum. Þangað liggur jeppaslóði af Bjarnarfjarðarhálsi, þaðan sem keppendur í styttra vegalengdinni koma inn á aðalleiðina. Eftir það hallar vötnum mjög til Steingrímsfjarðar. Komið er niður í Selárdal skammt frá eyðibýlinu Bólstað, vaðið yfir Selá (með aðstoð eftir þörfum) og endaspretturinn tekinn inn dalinn að skíðaskálunum á Brandsholti, þar sem hlaupið endar.

Styttra hlaupið (15,5 km) hefst í u.þ.b. 200 m hæð á þjóðveginum á Bjarnarfjarðarhálsi við norðanverðan Steingrímsfjörð, u.þ.b. 2 km ofan við bæinn Bassastaði. Þaðan liggur leiðin eftir jeppaslóða inn á sunnanverða Trékyllisheiði. Eftir u.þ.b. 8,5 km er komið inn á hlaupaleiðina norðan úr Trékyllisvík, (sjá leiðarlýsingu lengra hlaupsins). Þar er beygt til suðurs og hlaupið sömu leið og í lengra hlaupinu, niður í Selárdal og að skíðaskálanum þar sem hlaupið endar.

Skráning og nánari upplýsingar eru á Trékyllisheiðin 2021 | Netskraning.is

DEILA