Mest fólksfjölgun á Bíldudal

Bíldudalshöfn.

Íbúum hefur fjölgað mest á Bíldudal frá 1. desember sl samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands. Fjölgunin nemur 41 manns eða 17%. Íbúar voru 1. desember 236 en eru nú 277. Er þetta næstmesta hlutfallslega íbúafjölgun á landinu á þessu tímabili. Aðeins í Helgafellssveit á Snæfellsnesi varð fjölgunin meiri eða 21,5%, en það eru reyndar ekki nema 14 manns á bak við þá fjölgun.

Í Vesturbyggð fjölgaði íbúum um 55 manns og fjölgunin á Bíldudal ber upp þessa fjölgun í sveitarfélaginu. Á Patreksfirði fjölgaði um 12manns, úr 722 manns í 734 sem gerir 1,7% fjölgun.

8% fjölgun á Suðureyri

Í Ísafjarðarbæ fjölgaði úr 3.790 manns í 3.831 manns frá 1. desember sl til 12. ágúst. Þegar breytingin er greind eftir íbúakjörnum í sveitarfélaginu kemur í ljós að fjölgun varð á Ísafirði í pósthólfi 400 og á Suðureyri. Á Suðureyri fjölgaði íbúum úr 265 í 287. Það er um 8% fjölgun. Á Ísafirði fjölgaði úr 2.687 í 2.725 manns á þessu tímabili sem gerir um 1,4% fjölgun en eru þó 38 manns.

Á Þingeyri fækkaði íbúum úr 288 í 273 eða um 15 manns. Á Flateyri fækkaði um einn. Íbúafjöldinn fór úr 201 í 200 manns. Í Hnífsdal fækkaði um 5, fór úr 204 íbúum í 199.

Íbúafjöldinn í dreifbýlinu er stöðugur og litlar breytingar. Þó fjölgaði í Önundarfirði úr 52 í 58 manns.

DEILA