Makríll útbreiddur fyrir austan landið

Útbreiðsla og þéttleiki makríls, síldar, kolmunna og hrognkelsa (rauðir fylltir hringir). Yfirborðstogstöðvar með engum afla af viðkomandi tegund er merktar með x. Athugið að kvarði fyrir þéttleika er mismunandi milli tegunda og fyrir kolmunna er einungis sýnt hvar tegundin veiddist en ekki þéttleiki.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson kom í höfn í síðustu viku eftir að hafa lokið þátttöku í árlegum uppsjávarvistkerfisleiðangri í Norðurhöfum að sumarlagi. Í leiðangrinum. sem hófst 5. júí var farið í kringum landið.

Það voru teknar 64 togstöðvar og sigldar voru um 4300 sjómílur eða 8 þúsund km. Þá voru gerðar sjómælingar og teknir átuháfar á flestum togstöðvum.

Í leiðangrinum var rannsökuð útbreiðsla og þéttleiki makríls, síldar og kolmunna í íslenskri landhelgi að undanskildum suðaustur hluta hennar sem Færeyingar og Norðmenn rannsökuðu.

Bráðbirgða niðurstöður sýna að magn makríls í íslenskri landhelgi er meira en sumarið 2020 en mun minna en áratuginn þar á undan. Makríll hefur áberandi meiri útbreiðslu fyrir austan landið en sumarið 2020 en þéttleikinn er lítill. Líkt og undanfarin ár veiddist norsk-íslensk vorgotssíld á flestum togstöðvum fyrir norðan og austan landið og íslensk sumargotssílds veiddist á landgrunninu fyrir sunnan og vestan landið.

0-ára kolmunni veiddist við landgrunnsbrúnina fyrir sunnan og vestan landið sem gerðist síðast í þessum leiðangri sumarið 2011. Lítið mældist af kynþroska kolmunna. Hrognkelsi voru með mesta útbreiðslu allra tegunda og veiddust á 59 af 64 stöðum. Í leiðangrinum voru merkt alls 451 hrognkelsi.

Gögn frá skipunum fimm sem taka þátt í leiðangrinum verða tekin saman og greind upp úr miðjum ágúst og niðurstöður þeirrar vinnu síðan kynntar í lok ágúst.

DEILA