OV: 52 m.kr. í þrífösun til Árneshrepps í ár

Djúpavík.

Áætlanir Orkubús Vestfjarða hljóða upp á 52 milljónir (án vsk) fyrir hlut OV í framkvæmdum þessa árs þ.e. að klára lagningu þriggja fasa jarðstrengs frá Selá í Steingrímsfirði og upp á Trékyllisheiði að núverandi strengenda.

Þetta kemur fram í svörum Halldórs Magnússonar, framkvæmdarstjóri veitusviðs Orkubúsins við fyrirspurn Bæjarins besta.

Framkvæmdir eru hafnar við þrífösun rafmagns norður í Árneshrepps og samhliða er lagður ljósleiðari. Þegar var búið að leggja strengi frá Trékyllisheiðinni og norður til Djúpavíkur í Reykjarfirði. Kostnaður við þrífösunina er sennilega um 2/3 hluti kostnaðar á móti ljósleiðarvæðingu að sögn Halldórs.

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps vonast til þess að húsin í þorpinu verði tengd í haust bæði við rafmagnið og ljósleiðarann og takist það verður hvort tveggja komið til Djúpuvíkur.

Síðan er gert ráð fyrir því að halda áfram frá Djúpuvík og norður í Trékyllisvíkina og Norðurfjörðinn.

Halldór Magnússon segist reikna með svipuðum kostnaði við næsta áfanga fyrir Reykjafjörð og Naustvíkurskarð að Bæ í Trékyllisvík. 

Ekki liggur fyrir hvort sá hluti verði farinn á næsta ári.

DEILA