Að nefna snöru í hengds manns húsi

Þetta gamla máltæki hefur aldrei átt betur við en í dag varðandi fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga. Svo er komið í umræðunni um fiskveiðikerfið að telja má á fingrum annarrar handar þá sem dirfast að gagnrýna það – nefna snöruna.
Til langs tíma hafa hagsmunasamtök stórútgerðarinnar, í samvinnu við opinbera stjórnsýslu og fleiri, breitt þann boðskap út um heimsbyggðina að Íslendingar hafi fundið upp og sett á fót fiskveiðikerfi sem sé í senn rekið af ábyrgð með sjálfbærni að leiðarljósi og því öllum til eftirbreytni. Til að gera langa sögu stutta: „Besta fiskveiðikerfi í heimi“. Settar eru á fót sykurhúðaðar ráðstefnur þar sem fræðimenn mæra og dásama kvótakerfið.

Andstyggilegur blekkingarleikur

Í mínum huga er þetta ófyrirgefanlegur og andstyggilegur blekkingarleikur. Hvernig væri að þessir sömu aðilar upplýsi um „árangurinn“ frá 1984 varðandi uppbyggingu þorskstofnsins? Ástand humarstofnsins? Ástand loðnustofnsins? – svo fátt eitt sé talið. 
Árið 1984 ráðlagði Hafrannsóknastofnun 220 þúsund tonna veiði af óslægðum þorski. 
37 árum síðar leggur stofnunin til 222 þúsund tonna veiði, en ætti í raun að leggja til 188 þúsund tonn. Hvers vegna? Jú, vegna fáránlegs ákvæðis um „sveiflujöfnun“ sem kemur reiknimódeili Hafró í sjálfu sér ekkert við. Staðreyndin er sú að Hafró hefur rekið nýtingarstefnu sem er löngu kolfallin á prófinu. Þessi þrákelni hefur að öllum líkindum haft af þjóðinni hundruð milljarða í gjaldeyristekjum frá árinu 1984. 

Messað um árangur

Til landsins er á hverju ári boðið vel meinandi og fróðleiksþyrstu fólki um velferð veiðimanna og fiskverkafólks á eigin heimasvæðum (t.d. Afríku) sem við hér í norðrinu tölum hiklaust niður til með því að kalla „vanþróuð“ ríki (og þá væntanlega „vanþróað fólk“). Yfir þeim er messað um stórkostlegan árangur Íslendinga í fiskveiðistjórnun og þeim ráðlagt að yfirfæra dásemdina heim til sín. Í þessu sambandi rifja ég upp sögu sem mér var sögð fyrir löngu:Í einu ríkjanna við Vesturströnd Afríku var ákveðið að setja á framseljanlegt kvótakerfi í humarveiðum. Veiðarnar fóru og fara væntanlega enn þannig fram að menn vaða út frá ströndinni og kafa eftir bráðinni. Einn stærsti kvótinn lenti í fangi rakara inni í Mið-Afríku sem aldrei hafði séð sjó. Sjálfsagt var það tilviljun að rakarinn var náfrændi sjávarútvegsráðherrans.

Til langs tíma hafa hagsmunasamtök stórútgerðarinnar, í samvinnu við opinbera stjórnsýslu og fleiri, breitt þann boðskap út um heimsbyggðina að Íslendingar hafi fundið upp og sett á fót fiskveiðikerfi sem sé í senn rekið af ábyrgð með sjálfbærni að leiðarljósi og því öllum til eftirbreytni.

Að ráðleggja fólki frá slíkum ríkjum/svæðum að taka upp framseljanlegt, einstaklingsbundið kvótakerfi, þar sem spillingin er botnlaus í stjórnsýslunni, er ótrúleg ósvífni. Þeir Íslendingar sem þar eiga hlut að máli ættu að skammast sín. Þeir vita mætavel og jafnvel betur er margur hvert framhaldið er. 
Staðreyndin er sú að við Íslendingar höfum ekki fundið upp neinar töfralausnir varðandi nýtingu og umgengni fiskimiða. Ekkert af því sem Hafró lofaði í upphafi varðandi „uppbyggingu“ þorskstofnsins, hvað þá annarra stofna, hefur staðist. Frá því Hafró var fært alræðisvald hvað þetta varðar er ekki hægt að benda á eitt einasta dæmi um „uppbyggingu“ eins einasta fiskistofns við landið sem heyrir undir aflamark.
Kaldhæðnin ríður ekki við einteyming. Sá stofn sem „stækkaði“ mest á milli áranna 2020/2021 var hrognkelsastofninn – grásleppan. Hún er í sóknarmarki.

Snaran sem nefnd er aflamarkskerfi

Snaran sem nefnd er hér í upphafi heitir aflamarkskerfi. Með því að úthluta veiðiheimildum í magni (kg) gerist það óhjákvæmilega. Stór hluti þeirra sem sækja miðin velja þau kíló úr sjó sem skila mestum verðmætum. Lái þeim hver sem vill. Þetta liggur í hlutarins eðli. 
Hér er smá myndlíking: ef X fjölda einstaklinga yrði hleypt inn í stórmarkað eftir matvælum þeim að kostnaðarlausu og viðkomandi gefið fyrirfram að hann mætti tína saman ákveðið magn (kg), er líklegt að viðkomandi kæmi til baka með kartöflur og lauk á tilboði til að uppfylla „kvótann“? 
Þetta vandamál endurspeglast í ákæru Fiskistofu gagnvart Bergvík GK 22, sem var staðinn að grófu og óafsakanlegu brottkasti á fiski fyrir örfáum dögum. 
Í ljósi þeirrar kæru Fiskistofu ætla ég að leyfa mér að giska: Fiskistofa hefur undir höndum upplýsingar um brottkast á miðunum sem dregur upp gjörólíka mynd af því sem við viljum telja þjóðum heims – og sjálfum okkur – trú um.
Brottkast á Íslandsmiðum hefur viðgengist löngu fyrir vélvæðingu fiskiskipaflotans. Eftir vélvæðinguna jókst þetta stórkostlega. 
Brottkast hefur alla tíð verið stundað í fiskveiðum. Ekki bara hérlendis – þetta er vandamál alls staðar í heiminum. Árlega eru veidd u.þ.b. 100 milljón tonn af villtum fiski. Segjum sem svo að „einungis“ 5% sé kastað í hafið. Það þýðir 5 milljónir tonna, eða ríflega fimmfalt það sem íslenski fiskiskipaflotinn dregur að landi árlega er fargað. 
Á árunum þegar togarar Breta, Þjóðverja og annarra skröpuðu hér allt upp í fjörur var veiðin miklu meiri en hinar skráðu tölur segja til um. Brottkastið var lygilegt. Sjálfur var ég á togurum Útgerðarfélags Akureyrar til margra ára og það var ekkert smotterí sem fór út um lensportin. Sá „afli“ fór, eftir því sem ég best veit, ekki í skipsbækurnar. Það kann þó að vera verðugt rannsóknarefni hvort í þeim leynast upplýsingar í þessum efnum.

Býður upp á sóðaskap

Aflamarkskerfið býður upp á sóðaskap. Það er með innbyggðum hvata til brottkasts – þ.e. að hirða það sem er verðmætast og kasta hinu. 
Ég viðurkenni fúslega að ég hafði í gegnum árin talið mér trú um að brottkastið hefði að mestu horfið með tímanum, væri að sjálfsögðu eitthvað – en hverfandi. Ég vildi trúa því að öll þessi „umhverfisvakning“ og sjálfbærnihjalið væri meira en orðin tóm. Ég er kominn á þá skoðun að ég hafi haft rangt fyrir mér. Það er kominn tími til að gera upp við núverandi fyrirkomulag, aflamarkskerfið. 
Það er tími til kominn að horfast í augu við þá staðreynd að „besta fiskveiðikerfi í heimi“ er kerfi sóunar og spillingar. Það er spilling að henda fiski – svo það sé sagt.

Á árunum þegar togarar Breta, Þjóðverja og annarra skröpuðu hér allt upp í fjörur var veiðin miklu meiri en hinar skráðu tölur segja til um. Brottkastið var lygilegt. 

Kerfi sem ber í sér hvata til brottkasts á fiski, framhjálöndunar, svindli á ísprósentu, tegundasvindls og ýmsu fleiru. 
Drónaeftirlit Fiskistofu mun litlu sem engu breyta í þessum efnum. 

Ég er í ágætu sambandi við fjölmarga erlenda aðila í „fiskibransanum“. Flestir þeirra hafa þá ímynd af íslenskum fiskveiðum að hér hafi veri fundin upp töfralausn varðandi nýtingu fiskistofna og umgengni um fiskimið. 
Gerum þeim grein fyrir staðreyndum. Hættum blekkingarleiknum. Það er mun betra að við gerum það áður en þeir átta sig á því hver sannleikurinn er í málinu því það mun óhjákvæmilega gerast, fyrr eða síðar.

Arthúr Bogason

Höfundur er formaður Landssambands smábátaeigenda.

DEILA