Bjarni Pétur er traustsins verður

Þegar mikið liggur við koma mannkostir skýrast í ljós. Þannig var það er upplýstist á dögunum að enginn sjálfstæðismaður búsettur á Vestfjörðum biði sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Sú staða var öllum mikil vonbrigði ekki síst í ljósi þess að áhugi á að prófkjör yrði viðhaft virtist mikill þar um slóðir.

Við svo búið mátti ekki standa og glaðbeittur svaraði Bjarni Pétur Marel Jónasson kalli kjörnefndar.  Án undirbúnings skellti hann sér í slaginn. Það var vel ráðið. Hann sækist eftir fjórða sæti á lista flokksins í kjördæminu og það er skynsamlegt stöðumat hjá Bjarna. Færist ekki um of í fang en öðlast mikilvæga reynslu.

Þrátt fyrir ungan aldur er Bjarni talsvert hertur í hinu pólitíska starfi enda starfað í ungliðahreyfingu flokksins og situr nú í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna auk þess að leiða starf ungra á Ísafirði.

Ég hef orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að fá í kjölfar framboðs hans að fylgjast með honum á nokkrum þeirra sameiginlegu framboðsfunda sem haldnir hafa verið í kjördæminu á undanförnum dögum. Þar hefur hann staðið sig vel og komið sjónarmiðum sínum og sveitunga sinna vel á framfæri. Skarpsýni hans í bland við létta lund hefur hrifið fólk bæði til sjávar og sveita. Hann er góður fulltrúi framtíðarkynslóðar Vestfirðinga sem vill nýta og njóta þess er Vestfirðir hafa uppá að bjóða. Vill jafnframt að íbúar þar eigi að sitja við sama borð og aðrir landsmenn þegar kemur að þjónustu við íbúa. Gildir þar einu um hvaða innviði átt er við svo notað sé það ofnotaða orð nútímans.

Af gamalli reynslu minni veit ég að seint  verða Vestfirðingar sammála í stjórnmálum. Hins vegar er nauðsynlegt að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum, líkt og á öðrum stöðum í okkar víðfema kjördæmi, standi við bakið á þessum efnilega frambjóðanda sem Bjarni Pétur er. Ég hvet því mína gömlu sveitunga til þess að styðja Bjarna í sókn sinni eftir fjórða sæti framboðslista flokksins. Því atkvæði verður vel varið. Bjarni Pétur er þess trausts verður.

Halldór Jónsson

Höfundur er fyrrverandi formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

DEILA