Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar um norðurslóðir fær styrk úr ríkissjóði

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum sl. föstudag tillögu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um stuðning við að setja á fót sjálfseignarstofnun Ólafs Ragnars Grímssonar um málefni norðurslóða í Reykjavík.

Hringborði Norðurslóða – Arctic Circle verða lagðar til 10 milljónir króna af sameiginlegu ráðstöfunarfé ríkisstjórnar til að standa straum af frekari undirbúningi verkefnisins.

Undirbúningsnefnd um verkefnið sem skipuð var í febrúar sl. hefur skilað ríkisstjórn tillögum sínum. Unnin verður þarfagreining fyrir nýbyggingu stofnunarinnar ásamt kynningarefni fyrir alþjóðlega hönnunarsamkeppni og fjárhagslega bakhjarla.

Stofnuninni er ætlað að verða vettvangur fyrir alþjóðlega samvinnu um málefni norðurslóða, aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, sjálfbærni og aðra tengda þætti. Nýbygging hennar yrði framtíðarheimili Hringborðs norðurslóða. Markmiðið er að tryggja Íslandi til langframa þá sterku stöðu sem það hefur áunnið sér sem þungamiðja í alþjóðlegri umræðu um norðurslóðir.

Ekki verði þó skörun við hefðbundna ríkjasamvinnu eða lögbundið hlutverk Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og starfsemi Norðurslóðanets Íslands.

Gert er ráð fyrir því að fjáröflun fyrir bygginguna verði á höndum Hringborðs norðurslóða og stjórnar hinnar nýju stofnunar sem og bygging og rekstur húsnæðisins.

DEILA