Eyrarrósin: verðlaunafhending verður á Patreksfirði

OPIÐ FYRIR UMSÓKNIR
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um Eyrarrósina 2021 og rennur umsóknarfrestur út 26. apríl næstkomandi. Nánari upplýsingar og hlekk á umsóknareyðublað má finna á www.listahatid.is/eyrarrosin.

Hefð er fyrir því að veita verðlaunin í heimabyggð síðasta Eyrarrósarhafa og þannig verður það áfram. Verðlaunaafhending fer nú fram í maí í stað febrúar áður.  Þar sem heimildamyndahátíðin Skjaldborg hlaut viðurkenninguna síðast fer afhendingin fram á Patreksfirði í ár. Frú Eliza Reid, verndari Eyrarrósarinnar, afhendir verðlaunin.

Eins og frá var greint í gær hér á Bæjarins besta hafa allt frá árinu 2005 Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Icelandair (áður Flugfélag Íslands) staðið saman að Eyrarrósinni; viðurkenningu sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. 

Fyrirkomulag viðurkenningarinnar hefur verið með svipuðu sniði allt frá upphafi, en við endurnýjun samstarfssamnings í ár var ákveðið að endurskoða skipulagið með það í huga að styrkja Eyrarrósina enn frekar sem raunverulegan bakhjarl lista- og menningarlífs utan höfuðborgarsvæðisins. Samráð var haft við menningarfulltrúa á landsbyggðinni í því ferli.


Skrúðganga á lokakvöldi Skjaldborgarhátíðar.

Mynd: Hrund Atladóttir.