Fram kemur í ársskýrslu Náttúruverndarsamtaka íslands fyrir starfsárið 2019 – 2020 að eitt af fjórum helstu baráttumálum samtakanna er baráttan gegn laxeldi í opnum sjókvíum eins og það er orðað í skýrslunni. Af þeim sökum hafa samtökin átt aðild að kærum og athugasemdum um laxeldi í samvinnu við Laxinn lifi og fleiri samtök. Á það bæði við um ýmsar kærur til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og höfðun dómsmála. Þessi mál hafa fyrst og fremst beinst gegn laxeldinu á Vestfjörðum.
Ekki er í ársskýrslunni gerð grein fyrir ástæðum andstöðunnar né dregnar fram helstu röksemdir samtakanna.
Hin þrjú helstu baráttumál samtakanna sem eru nefnd til eru stofnun þjóðgarðs á hálendinu, loftslagsbreytingar og súrnun sjávar og vernd líffræðilegs fjölbreytileika hafsins.
Samtökin styðja stofnun þjóðgarðs á hálendinu og segir í ársskýrslunni að ætla verði að Alþingi afgreiði ríkisstjórnarfrumvarp um stofnun þjóðgarðsins þar sem málið sé í stjórnarsáttmálanum.
Vernd líffræðilegs fjölbreytileika sjávar
Samtökin leggja mikla áherslu á að gerður verði á vegum Sameinuðu þjóðanna ný samningur um verndun og nýtingu líffræðilegs fjölbreytileika og gera athugasemd við að íslensk stjórnvöld hafi ekki mótað stefnu um það efni.