Hjólasöfnun Barnaheilla – Save the Children á Íslandi hófst nú í kringum sumardaginn fyrsta er og hafa fjölmörg hjól borist í söfnunina sem sjálfboðaliðar á verkstæði okkar hafa hafist handa við að laga og yfirfara.
Úthlutun í samstarfi við félagsþjónustur sveitarfélaganna er farin af stað og gengur hún vel. Það er engu líkt að upplifa gleði í augum barna og ungmenna sem sjá fram á það að geta sinnt heilnæmri útivist í sumar með því að hjóla á eigin hjóli. Markmið Hjólasöfnunarinnar er að sem flest börn og ungmenni eignist sitt eigið hjól.
Í ár er líka nýbreytni í starfsemi Hjólasöfnunarinnar. Hjólreiðafélagið Drangey á Sauðárkróki og Barnaheill – Save the Children á Íslandi tóku upp samstarf og eru meðlimir Drangeyjar að taka á móti hjólum í Skagafirði.
Vonir standa til að hægt sé að þróa verkefnið enn frekar og útfæra á fleiri stöðum á landinu á næstu árum. Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru reiðubúin til þess að halda utan um slík verkefni í samstarfi við sveitarfélög og félagasamtök.