Ferðaþjónustan Reykjanesi telur Ísafjarðarbæ eiga jarðhitann

Reykjanes. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ferðaþjónustan í Reykjanesi telur að jarðhitinn í jörðinni Reykjanes tilheyri landeiganda, það er Ísafjarðarbæ en ekki Orkubúi Vestfjarða. Orkubú Vestfjarða telur sig réttan eiganda réttindanna og vísar til dóms Landsréttar frá 2019 því til stuðnings og hefur farið fram á að Ísafjarðarbær staðfesti það.

Í bréfi ferðaþjónustunnar til Ísafjarðarbæjar kemur fram sá rökstuðningur að tilgangur Orkubúsins sé lögum samkvæmt m.a. að virkja jarðhita á Vestfjörðum, þar sem hagkvæmt þykir. Þá segir í lagaákvæðinu um Orkubúið að það skuli eiga og reka jarðvarmavirki og reka fjarvarmakyndistöðvar ásamt nauðsynlegu dreifikerfi á veitusvæði sínu. „Engu slíku er til að dreifa í Reykjanesi á vegum Orkubúsins og hefur aldrei verið.“ segir í bréfinu.

„Ferðaþjónustan í Reykjanesi hefur aldrei dregið í efa lögmæt réttindi Orkubús Vestfjarða, né heldur efast um að Orkubúið eigi „virkjunarrétt“ á jarðhita á jörðinni Reykjanesi, umfram þá nýtingu sem fyrir var og er á svæðinu, á grundvelli afsals Ísafjarðarkaupstaðar frá 1. desember 1978. Ferðaþjónustan bendir hinsvegar á að „eignarréttur á jarðhita“ og „virkjunarréttur á jarðhita“ eru tvö aðskilin hugtök sem um gilda mismunandi hlutlæg lagaleg sjónarmið.

Það er skilningur Ferðaþjónustunnar að Ísafjarðarbær, eigandi jarðarinnar Reykjanes, sé eigandi jarðhitans á jörðinni, enda verður hann ekki frá jörðinni skilinn, nema með sérstöku leyfi ráðherra þó svo að „einkaréttur“ til að virkja þennan varma hafi verið afsalað til Orkubúsins í kjölfar laga um Orkubúið á sínum tíma. Þennan virkjunarrétt hefur Orkubúið enn ekki nýtt sér og hefur heldur ekki til þess tilskilin leyfi stjórnvalda. Nýting jarðvarma er háð leyfi Orkustofnunar, sbr. 6.gr. auðlindalaga, en ekki þessa umrædda afsals frá 1978 sem Orkubúið vísar til.“

Sjónarmið Ferðaþjónustunnar í Reykjanesi er að einkaréttur Orkubús Vestfjarða til virkjunar jarðhita í Reykjanesi vegna almenningsveitu í Súðavíkurhreppi að fengu nýtingarleyfi Orkustofnunar, komi til þess, breyti í raun engu um þá nýtingu jarðhita sem fyrir er á svæðinu og hófst þar fyrir átta áratugum, fyrst vegna skólahalds og nú ferðaþjónustu, sundlaugar og hótels.

DEILA