Merkir Íslendingar -Árni Stefánsson

Árni Stefánsson hreppstjóri fæddist 23. mars 1915 að Hólum í Dýrafirði. Faðir hans var Stefán, f. 14.5. 1881, d. 18.9. 1970, skipstjóri og síðar bóndi í Hólum sonur Guðmundar Nathanelssonar bónda á Kirkjubóli í Dýrafirði og k.h. Margrétar Guðmundsdóttur húsfreyju.

Móðir Árna og fyrri kona Stefáns var Sigrún, f. 25.7. 1884, d. 15.2. 1926, húsfreyja og saumakona, dóttir Árna Árnasonar bónda á Hörgshóli í Vesturhópi, V-Hún., og k.h. Rósu Guðmundsdóttur húsfreyju.

Árni var við nám í Núpsskóla í Dýrafirði 1932-34 og lauk þaðan prófi. Hugur hans beindist þó að sjónum og stundaði hann sjómennsku þar til hann fór í Stýrimannaskólann í Reykjavík og útskrifaðist með meira fiskimannapróf þaðan 1941. Eftir prófið varð Árni skipstjóri á vélskipinu Sæhrímni við síldveiðar og utanlandssiglingar á stríðsárunum en í eitt skiptið þurfti hann að sigla í land því hann og áhöfnin höfðu sýkst af berklum. Árni þurfti síðan að hætta á sjónum vegna sjúkdómsins og vann við síldarleit frá Siglufirði sumrin 1948-57, en annars bjó hann alla tíð á Þingeyri.

Árni varð hreppstjóri í Þingeyrarhreppi 1954 þar til hann lést og varð oddviti 1958 og gegndi þeirri stöðu í tólf ár. Einnig vann hann ýmis störf fyrir Kaupfélag Dýrfirðinga Hann varð fiskmatsmaður frá 1954. Í minningargrein segir um hann: Árni þótti traustur og öruggur skipstjórnarmaður, sem alltaf sigldi skipi sínu heilu í höfn. […] Árni var mikið lesinn og fróður um menn og málefni, enda greindur vel. Hann var vinfastur og góður heimilisfaðir. Hlédrægur var hann.“ Eiginkona Árna var Hulda Sigmundsdóttir, f. 29.6. 1923 á Þingeyri d. 23.8. 2007, húsfreyja, fréttaritari Morgunblaðsins og handavinnukennari á Þingeyri, dóttir Sigmunds Jónssonar, kaupmanns á Þingeyri, og Fríðu Jóhannesdóttur húsfreyju. Börn Árna og Huldu eru Álfheiður Erla sem lést ung, Erla og Guðmundur. Árni Stefánsson lést 20. mars 1972.

Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA