Merkir Íslendingar – Kristín Ólafsdóttir

Kristín Ólafsdóttir læknir fæddist í Lundi í Lundarreykjadal 21. nóvember 1889. Hún var dóttir Ólafs Ólafssonar, prests í Lundi í Lundarreykjadal og síðar prófasts í Hjarðarholti í Dölum, og k.h., Ingibjargar Pálsdóttur húsfreyju.

Ólafur var sonur Ólafs Jónssonar, kaupmanns í Hafnarfirði, og Mettu Kristínar Ólafsdóttur húsfreyju, en Ingibjörg var dóttir Páls Jónssonar Mathiesen, prests í Hjarðarholti, og Guðlaugar Þorsteinsdóttur húsfreyju.

Kristín var systir Jóns Foss læknis; Ástu, móður Ólafs Ólafssonar, fyrrv. landlæknis; systir Guðrúnar, móður Ólafs Björnssonar hagfræðiprófessors, og systir Páls, föður Ólafar myndhöggvara.

Metta Kristín var systir Maríu, ömmu Lilju Petersen læknis, Unu, móður Ástríðar Thorarensen hjúkrunarfræðings, Birnu, móður Guðrúnar Agnarsdóttur læknis, sem er móðir Kristjáns Orra læknis, en systir Guðrúnar er Elín, móðir Birnu Óskar læknis.

Kristín var eiginkona Vilmundar Jónssonarlæknis á Ísafirði og síðan landlæknis en börn þeirra:

Guðrún, móðir Þorsteins heimspekings, Vilmundar ráðherra og Þorvalds hagfræðiprófessors Gylfasona; Ólöf, móðir Ólafs framkvæmdastjóra og Kristínar, fyrrv. fréttamanns Þorsteinsbarna, og Þórhallur prófessor.

Kristín lauk stúdentsprófi frá MR 1911, var fyrsta konan til að ljúka embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands þann 15. febrúar 1917, og var kandídat við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn og Ullevål Sykehus í Osló.

Kristín var starfandi læknir á Ísafirði með manni sínum þar, 1917-31, og í Reykjavík 1931 og til æviloka.

Kristín sat m.a. í skólanefnd Húsmæðraskólans í Reykjavik og í barnaverndarnefnd Reykjavíkur um skeið.

Þau Vilmundur héldu gestkvæmt menningarheimili á Ísafirði og í Reykjavík og Kristín var afkastamikill þýðandi og höfundur, m.a. alþýðlegra rita um heilsufar.

Kristín lést 20. ágúst 1971.


Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA