Ríkið með nýjar kröfur um þjóðlendur – vill eiga virkjunarréttindi Hvalárvirkjunar

Að undirlagi Óbyggðanefndar hefur ríkið sett fram 17 nýjar kröfur um þjóðlendur á svæðum sem Óbyggðanefnd hafði lokið umfjöllun sinni og kveðið upp sína úrskurði. Kröfur ríkisins voru birtar 18. janúar síðastliðinn. Eitt af þessum 17 svæðum er á Vestfjörðum. Um er að ræða land sem er  austan og sunnan Drangajökuls og ríkið gerði á sínum tíma ekki kröfu um að væri þjóðlenda en Óbyggðanefnd benti þó á í úrskurði að óvissa kynni að vera um hvort það væri innan eignarlanda

Ríkið hafði í fyrri kröfu farið fram á að Drangajökull væri þjóðlenda og var á það fallist í úrskurði nefndarinnar. Hins vegar segir í hinnu nýju kröfulýsingu ríkisins að Óbyggðanefnd hafi gert athugasemd við kröfugerð ríkisins á þessum 17 svæðum en ekki getað aðhafst þar sem nefndinni bar að úrskurða út frá kröfugerðinni. Telur Óbyggðanefndin að tiltekin svæði sem féllu utan við kröfur ríkisins kynnu einnig að vera utan eignarlanda. Í Strandasýslunni taldi Óbyggðanefnd óljóst hvort eignarlönd næði til jökuls.

Af þessum sökum var samþykkt á Alþingi á síðasta ári að heimila ríkinu að setja fram nýjar kröfur og eru þær nú komnar fram.

Hvað svæðið í Strandasýslu varðar þá gerir fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins  nú kröfu um stóran hluta hálendisins sunnan og austan Drangajökuls sem þjóðlendu og þar með verði það ekki lengur eign landeigenda. Með eignarréttinum fylgja vatnsréttindin og nýting þeirra,  sem eru forsenda Hvalárvirkjunar.

Einkum snertir hin nýja krafa ríkisins jarðirnar Ófeigsfjörð, Engjanes og Drangavík. „Landamerkjabréf Drangavíkur hefur einungis að geyma lýsingar á merkjum næst sjónum og þótt merkjum sé lýst lengra inn til landsins í landamerkjabréfum Engjaness og Ófeigsfjarðar eru merkjalýsingar þeirra óglöggar hvað það varðar.“ segir í kröfulýsingunni og er vitnað til niðurstöðu Óbyggðanefndar.