Merkir Íslendingar – Sigurður Jónsson

Hrafnseyri við Arnarfjörð. mynd: Björn Ingi Bjarnason.

Sigurður Jónsson fæddist 2. janúar 1777 á Stað á Snæfjallaströnd þar sem faðir hans var þá prestur.

 

Foreldrar hans voru séra Jón Sigurðsson prestur og Ingibjörg Ólafsdóttir húsfreyja. Faðir Sigurðar, Jón Sigurðsson eldri, tók við Hrafnseyrarsókn árið 1786 og Sigurður var vígður aðstoðarprestur hans árið 1802.

 

Þegar faðir Sigurðar lést árið 1821 tók Sigurður við prestsembættinu á Hrafnseyri. Sigurður var síðar gerður prófastur Ísafjarðarprófastsdæmis árið 1836. Sigurður kvæntist Þórdísi Jónsdóttur, sem einnig var komin af prestum, en faðir hennar var séra Jón Ásgeirsson prestur á Mýrum í Dýrafirði og síðar að Holti í Önundarfirði.

 

Sigurður og Þórdís eru foreldrar Jóns Sigurðssonar forseta, en hann var skírður í höfuðið á móðurafa sínum, Jóni Ásgeirssyni, sem hafði látist ári áður en hann fæddist, en með nafngiftinni varð hann þó alnafni föðurafa síns.

 

Hjónin Þórdís og Sigurður hættu búskap árið 1851 og settust að hjá dóttur sinni Margréti í Steinanesi.

 

Sigurður Jónsson lést 31. október 1855 og voru hann og Þórdís kona hans bæði jarðsett í Otradalskirkjugarði í VesturBarðastrandarsýslu.

Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA