Merkir Íslendingar – Ágúst Böðvarsson

Ágúst Böðvarsson fæddist að Hrafnseyri við Arnarfjörð 3. janúar 1906 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Böðvar Bjarnason, prófastur á Hrafnseyri við Arnarfjörð, og fyrri kona hans, Ragnhildur Teitsdóttir húsfreyja. Böðvar var hálfbróðir Ragnheiðar, móður Jóns Leifs tónskálds, en bróðir Böðvars var Þórður kaupmaður, faðir Regínu leikkonu.

 

Séra Böðvar var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Ragnhildur Teitsdóttir gullsmiðs og veitingamanns á Ísafirði. Þau slitu samvistir 1913. Börn þeirra voru fjögur: Bjarni (faðir Ragga Bjarna), Guðrún (höfundur lagsins/sálmsins; Ég kveiki á kertum mínum), Þórey og Ágúst. — Seinni kona séra Böðvars er frú Margrét Jónsdóttir frá Hrauni í Keldudal, Dýrafirði. Börn þeirra voru þrjú: Baldur, Bryndís, Baldur.

Eiginkona Ágústar Böðvarssonar var Sigríður Sveinbjörnsdóttir húsfreyja og sonur þeirra Gunnar Hrafn byggingaverkfræðingur.
Ágúst lauk námi frá VÍ 1925, var bóndi að Hrafnseyri 1926-29 en hóf störf hjá dönsku landmælingastofnuninni Geodætisk Institut, árið 1930, sem þá vann að kortlagningu Íslands og stundaði hann síðan nám í landmælingum hjá stofnuninni í Kaupmannahöfn 1935-37.
Ágúst vann síðan við landmælingar Íslands á árunum 1930-76 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Hann tók við gríðarlega yfirgripsmiklu og mikilvægu starfi við íslenskar landmælingar og kortagerð er Íslendingar tóku við íslenskri kortagerð af Dönum árið 1955, varð fyrsti forstjóri Landmælinga Íslands 1959-76, fór í margra mánaða ferðir um landið þvert og endilangt og var m.a. frumkvöðull við gerð loftljósmynda hér á landi.
Ágúst samdi texta við ýmis þekkt dægurlög fyrri tíma, s.s. Skautapolka og Ljósbrá. Hann sat í stjórn Byggingasamvinnufélags starfsmanna ríkisstofnana um árabil frá 1948, í örnefnanefnd og Hrafnseyrarnefnd.
Árið 1996 kom út eftir Ágúst ritið Saga landmælinga Dana á Íslandi og ljóðabók, Ljóðmæli.
Ágúst var heiðurfélagi Ferðafélags Íslands, var virkur félagi í Oddfellow-reglunni, stúku nr. 11., Þorgeiri, og var heiðursfélagi hennar. Hann var sæmdur Hinni íslensku fálkaorðu.

 

Ágúst lést 27. janúar 1997.

 

Á Hrafnseyri við Arnarfjörð 3. ágúst 1980.
Þann dag og þar voru fyrstu embættisverk
frú Vigdísar Finnbogadóttur forseta Íslands.
.

.

.

Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA