Brothættar byggðir

Á Vestfjörðum eru nú þrjú verkefni í gangi undir merkjum Brothættra Byggða, Áfram Árneshreppur, Öll vötn til Dýrafjarðar og Sterkar Strandir.

Brothættar Byggðir er verkefni á vegum Byggðastofnunar sem unnið er í samvinnu við atvinnuþróunarfélag eða landshlutasamtök á hverju svæði og þau sveitarfélög sem um ræðir, en á þessu ári eru starfandi alls sjö slík verkefni.

Þessi verkefni eru mislangt á veg komin og lýkur verkefninu í Árneshreppi á árinu 2021.

Árangur af þessum verkefnum má til dæmis sjá í þeim verkefnum sem studd hafa verið svo sem uppbygging við Krossneslaug í Árneshreppi, gerð Tanksins á Þingeyri og áhugaverð verkefni eru að hefjast í Strandabyggð.

Í öllum verkefnum eru reglulegir íbúafundir haldnir, aðgerðaáætlun í gangi sem fylgt er eftir og mikill stuðningur við þróun verkefnishugmynda.

Verkefnin eru almennt til þriggja til fjögurra ára og er árlega úthlutað til verkefna á staðnum 5-7 milljónum króna.

Vegna Covid 19 var í vor samþykkt í fjáraukalögum 2020 að veita aukalega til úthlutunar í Brothættum byggðum, alls 100 milljónir.

Þessari fjárveitingu var skipt þannig, að 60 milljónum var skipt jafnt milli þeirra sjö verkefna sem eru í gangi og 40 milljónir fóru í Öndvegissjóð sem ætlaður var til að styrkja stærri frumkvæðisverkefni.

Aukaúthlutun var því um 8,5 milljónir á hverjum stað. Á Vestfjörðum voru því til úthlutunar alls 40.5 milljónir úr þessum sjóðum, það er árlegt framlag og aukaframlag. Og í úthlutun Öndvegissjóðs komu 24,3 mkr til viðbótar.