Listagjöf til þjóðarinnar á aðventunni

Íbúum um allt land býðst að njóta listagjafar helgina 19.-20. desember nk.
Listafólk í fremstu röð mun þá sækja fólk heim og flytja stutta listgjörninga, tónlist, ljóðlist, sirkusatriði eða dans sem gefendur geta pantað fyrir ástvini í gegnum vefinn.

Einnig verður boðið upp á rafrænar listagjafir til þeirra sem geta ekki tekið á móti gjöf í eigin persónu vegna sóttvarnatilmæla eða staðsetningar.

Verkefni þetta er unnið í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík og kemur í framhaldi af viðbragðsverkefni þeirra Listagjöf sem vakti mikla lukku í Reykjavíkurborg í byrjun nóvember.
Áætlað er að hið minnsta 100 listamenn muni að þessu sinni dreifa allt að 750 listagjöfum á tugi áfangastaða um land allt.

Opnað verður fyrir gefendur að panta Listagjafir á hádegi mánudaginn 14. desember. Þær verður hægt að panta gegnum vefslóðina listagjof.listahatid.is en þar verður einnig að finna allar nánari upplýsingar.

Á næstu dögum mun bókunarsíðan gigg.is einnig fara í loftið. Hún verður vettvangur til frambúðar þar sem listamenn sem taka að sér smærri uppákomur geta komið sér á framfæri og fólk keypt þjónustu þeirra.