Ekklesía – jólahátíð samfélags

 

„Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra.“

 

Ég var stoppaður nokkuð bratt á göngu í miðbænum um daginn, hvar ég skeiðaði á milli funda. Viðkomandi var uppveðraður – þekkti mig úr umfjöllun um kirkjuna og vildi koma sjónarmiðum sínum um þjóðkirkjuna á framfæri. Mér fannst það sjálfsagt. Án þess að fara ofan í saumana á samtalinu þá var inntakið á þá leið að kirkjan muni sjálfsagt lognast endanlega útaf þegar hún getur ekki einu sinni kallað fólk til kirkju á jólunum – stærstu félags og tengslahátíð hins vestræna heims. Ég hlustaði meira en ég lagði til málanna – sem er mögulega merki um að ég sé að skána. Ég lagði þó þetta innlegg inn í umræðuna til ávöxtunar: Forngríska orðið ekklesía þýðir ekki steypa eða viðarvirki – þaðan af síður stofnun. Ekklesía þýðir samfélag. Það getur vel verið að steinsteypan verði mannlaus um jólin – jafnvel verður hún tómur hellir fyrir fornleifafræðinga framtíðarinnar. Guð einn veit.

 

Kirkjan, samfélag fólks um trú, von og kærleik, er fyrirheitið sem kristur sendi lærisveina sína út til að boða – lausnargjaldið sem kristur greiddi fyrir á krossinum. Það er fagnaðarerindið sem mun lifa. Hitt er allt háð tíma og þroskasögu mannsins og mun vafalaust taka breytingum.

 

Kristur boðaði ekki stofnun – hann boðaði endurlausn mannsins og kærleikssamfélag um lifandi trú. Ekklesíu manna.

 

Svo skildum við.

 

Hitt er enn merkilegra, sem komst ekki fyrir í samtalinu. Frumkirkjan, rétt eins og kirkja dagsins í dag, glímdi við það vandamál að hún mátti ekki koma saman. Auðvitað ætla ég ekki að bera saman þá lífsógn, ofsóknir og píningar sem frumkristnir þurftu að þola, við okkar Covid tíma. Engu að síður segir saga frumkristninnar okkur frá stofneðli siðarins; samfélag heilagra sem mátti ekki koma saman svo þeir fundu sér leiðir til að eiga í fjarskiptum. Skildu eftir merki, skrifuðu þau í sandinn, meitluðu í hellisveggi – mættust í fjarlægð og tjáðu sig með fingramáli. Með trú, von og kærleik í hjarta, án steypu- og viðarvirkja, jafnvel án þess að mega koma saman, byggðu frumkristnir upp kristindóm – fjölmennustu trúarbrögð mannkynssögunnar – trúarbrögð sem mótuðu hinn vestræna heim í form dagsins í dag.

 

Kristindóm sem m.a. stofnaði til velferðarþjónustu sem samfélagið gerir sjálfsagða kröfu um í dag. Kristindóm sem lagði grunn að stofnun akademíunnar – háskólasamfélagsins sem við þekkjum í dag. Guðfræði er stundum köllum drottning vísindanna – kristindómurinn væri þá pápinn.

 

Það er því kirkjunni sögulega náttúrulegt að glíma við ástand eins og samkomubann Covid tíma – hún fer í frumgírinn. Er saman – þó hún komi ekki saman. Leggur áherslu á samfélag heilagra eins og segir í trúarjátningunni – samfélag sem tjáir sig í fjarskiptum. Í streymi, fjarmessum, nethelgistundum, sjónvarpsmessum, instagramhugleiðingum, youtubebænum og aftansöng á Facebook.

 

Það hefur verið stórkostlegt að sjá þjóðkirkjuna takast á við aðventuna, stærstu félagshátíð kristinna manna á lausnamiðaðan og framsækinn hátt.  Í stað þess að draga úr þjónustunni í ljósi aðstæðna gaf hún í – efldi fjarskiptin og netþjónustu. Allt frá fjölmennustu sóknum yfir í minnstu prestaköll hafa sent út reglulegar netútsendingar alla aðventuna. Lifandi kristið samfélag sem ekki getur hist í holdi – eflist þess í stað í andanum.

 

Hátíð ljóss og friðar er uppskeruhátíð faðmlaga og kossa – vinabanda og ættarmóta, nándar og kærleika. Á tímum sem takmarka öll þessi grunnstef grunaði einhvern að nú væri tími Kirkjunnar endanlega liðinn. En hann gleymdi, eða þekkti ekki upphafið – ekklesíu.

 

Samfélag kristinna manna um trú, von og kærleik  sem magnar sig ekki upp í steypu heldur í lifandi samfélagi andans. Samfélag sem færði sig yfir í fjarskipti og fjarmiðlun þessa aðventuna og sannaði enn og aftur hlutverk sitt og erindi.

 

Pétur G. Markan

samskiptastjóri Þjókirkjunnar

 

DEILA