Þingmenn vilja heiðra minningu þeirra Íslendinga sem fórust í seinni heimsstyrjöldinni.

Lögð hefur verið fram á Alþingi þingsályktunartillaga þar sem ríkisstjórninni er falið að setja fram annars vegar áætlun um að heiðra á varanlegan hátt minningu þeirra Íslendinga sem fórust í seinni heimsstyrjöldinni og hins vegar áætlun um undirbúning minningarathafnar sem fram fari árið 2024.

Ríkisstjórnin hafi samráð við sérfræðinga við gerð áætlananna sem verði bornar undir Alþingi í formi þingsályktunartillögu eigi síðar en í apríl 2021.

Í tillögunni segir að fyrir liggi heimildir um þann fjölda Íslendinga sem lést á stríðsárunum þótt heildartalan ráðist nokkuð af því hvað er álitið flokkast undir fall af völdum stríðsátaka.

Af þessum heimildum má álykta að í það minnsta 153 Íslendingar hafi látist vegna árása á skip sem þeir voru á eða árekstra skipanna við tundurdufl. Um er að ræða íslensk skip og erlend skip sem höfðu íslenska skipverja um borð.

Þetta eru 0,13% af íbúafjölda hér á landi miðað við manntal í lok árs 1940 (121.474).

Þessu til viðbótar fórust 58 á tveimur skipum, Sviða og Max Pemberton, sem líkur standa til að hafi tengst árekstrum við tundurdufl.

Einnig er gert ráð fyrir þeim sem féllu á Íslandi á stríðsárunum fyrir hendi bandarískra hermanna.
Heildarfjöldi Íslendinga sem féll af völdum stríðsátaka var því um 211 eða 0,17% af íbúafjölda landsins í lok árs 1940.

Óli Björn Kárason er fyrsti flutningsmaður en alls standa 20 þingmenn úr öllum flokkum að tillögunni.