Meira en minna – ábyrga leiðin

 

Leiðin út úr yfirstandandi atvinnukreppu er mikil áskorun.  Ráð jafnaðarmanna við þessar aðstæður eru skýr, felast í því að fjölga störfum, efla velferð og að skjóta nýjum grænum stoðum undir útflutning og verðmætasköpun framtíðar.  Lykilorðin eru vinna, velferð og græn uppbygging um land allt. Það er ábyrga leiðin og lítil hænuskref duga ekki.

Það er úrslitaatriði nú, að stíga fram af meiri festu en ríkisstjórnin áformar í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár.  Efnahagsáætlun Samfylkingarinnar fyrir árið 2021 sem kynnt var á dögunum er hins vegar afgerandi, svarar kalli samtímans og markar um leið fyrstu skrefin í átt að grænni framtíðarsýn jafnaðarmanna fyrir Ísland.  Á örfáa þætti hennar er drepið í þessari grein.

Fjölgum störfum strax

Við þurfum að leggja höfuðið duglega í bleyti og leita leiða til að fjölga og skapa ný störf með hraði, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Jafnaðarmenn benda á nokkra möguleik í því sambandi.  Nú er t.d. lag til að ráðast að undirmönnum í heilbrigðiskerfinu, í velferðarþjónustu, í skólunum og í lögreglunni. Beita þarf að auki virkum vinnumarkaðsaðgerðum, bæði ráðningarstyrkjum og námstengdum úrræðum. Þá er brýnt að veita sveitarfélögum miklu meiri stuðning en áformað er. Rauði þráðurinn er einfaldlega sá að vinna gegn því að kreppan dýpki enn frekar og verði langvarandi, hindra uppsagnir og langtímaatvinnuleysi.

Eitt ár án tryggingagjalds

Skynsamlegasta skattalækkunin fyrir fyrirtæki við núverandi aðstæður er tímabundin lækkun tryggingagjalds sem felur í sér að árið 2021 verði í raun tryggingagjaldslaust ár hjá einyrkjum og smáfyrirtækjum. Þessi lækkun skilar sér einnig til lítilla og meðalstórra fyrirtækja þar sem skatturinn leggst flatt á alla vinnu. Aðgerðin ýtir þannig undir fjölgun starfa. Að óbreyttu er hætta á að veirukreppan muni stráfella smærri fyrirtæki meðan stórfyrirtæki stækka markaðshlutdeild sína og hækka verð í skjóli veikari samkeppni.

 

Atvinnuleysisbætur og sveitarfélögin

 

Á einstökum óvissutímum sem þessum er niðurdrepandi að halda bótum atvinnuleysis- og almannatrygginga í lágmarki. Það má heldur ekki skilja sveitarfélög eftir í miklum þrengingum en þeirra málum hefur ríkisstjórnin lítið sinnt, þau hafa takmarkaða tekjumöguleika. Sveitarfélögin bera  hins vegar ábyrgð á mikilvægri velferðarþjónustu í nærsamfélaginu sem þyngist í erfiðu árferði – og hana þarf að verja en ekki skera niður.

 

Ríkisstjórnir annarra Norðurlanda hafa heitið því að bæta tekjufall sveitarfélaga að fullu. Ríkisstjórn Íslands hefur bætt tekjufall fyrirtækja en vanrækt sveitarfélögin. Ef ekki verður bætt hér úr, þá bitnar það verst á þeim sem síst skyldi og leiðir til fækkunar starfa sem eykur á vandann. Hvort tveggja, hækkun grunnbóta og stuðningur við sveitarfélög, er vel til þess fallið að örva heildareftirspurn í hagkerfinu.

 

Horfum fram

Við stöndum á þröskuldi nýrrar tæknialdar og vænta má mikilla breytinga á næstu árum í atvinnuháttum um heim allan.  Loftslagsváin er kunnuglegt umfjöllunarefni og er tvímælalaust stærsta áskorun sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir. Framtíð lífs á jörðinni veltur á því að ríki heims taki höndum saman um róttækar breytingar á framleiðslu og lifnaðarháttum. Við Íslendingar erum rík þjóð og búum yfir gnótt endurnýjanlegra auðlinda. Við höfum því skyldum að gegna við heimsbyggðina og komandi kynslóðir.

 

Hvar eru tækifærin?

 

Efnahagsáætlun Samfylkingar ber þess merki að jafnaðarmenn eru sér meðvitaðir um þá þróun sem þarf að eiga sér stað um land allt í nýsköpun, menningu, fjárfestingum og framkvæmdum undir merkjum grænnar atvinnubyltingar.  Þar er m.a. drepið á atriði sem snerta matvælaiðnaðinn, þ.m.t. landbúnað, lífræna eldsneytisframleiðslu, orkuskipti til sjós og lands,  líftækni, garðyrkju og skógrækt og fjölmörg fleiri atriði.

 

Ábyrga leiðin er ódýrari

 

Þegar allt er tekið saman er ábyrga leiðin ódýrari en leið ríkisstjórnarinnar. Ástæðan er sú að í fjárlögum og fjármálaáætlun stjórnarinnar birtist engin áætlun um hvernig koma megi hagvexti aftur í gang, draga úr atvinnuleysi og slá á þá miklu óvissu sem nú heldur aftur af fyrirtækjum og fjárfestingum.

 

Vinna og velferð eru meginstef í öllum þeim efnahagsaðgerðum sem Samfylkingin boðar. Þær eiga það sameiginlegt að fjölga störfum, halda uppi heildareftirspurn og verja þau okkar sem lenda verst í efnahagserfiðleikum vegna veirunnar. Leið jafnaðarmanna er ábyrga leiðin út úr atvinnukreppunni.

 

Nánar má lesa um um efnahagsáætlun Samfylkingarinnar í bæklingnum: Ábyrga leiðin – úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar https://issuu.com/samfylking/docs/abyrga_lei_in

 

Guðjón S. Brjánsson

þingmaður Samfylkingarinnar

NV kjördæmi

DEILA