Fjölmenningarsetur vantar forstöðumann

Embætti forstöðumanns Fjölmenningarseturs sem starfar á grundvelli laga nr. 116/2012, um málefni innflytjenda, með síðari breytingum, er laust til umsóknar.

Félags- og barnamálaráðherra mun skipa í stöðuna til fimm ára, sbr. 23. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum. Miðað er við að skipað verði í stöðuna frá og með 1. janúar 2021. Hlutverk Fjölmenningarseturs er meðal annars að veita stjórnvöldum, sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum, félögum og einstaklingum ráðgjöf og upplýsingar í tengslum við málefni innflytjenda og miðla upplýsingum um réttindi og skyldur innflytjenda.
Sömuleiðis að fylgjast með þróun innflytjendamála í þjóðfélaginu og koma á framfæri við ráðherra, innflytjendaráð og önnur stjórnvöld ábendingum og tillögum um aðgerðir sem hafa það að markmiði að allir einstaklingar geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu óháð þjóðerni og uppruna.

Starfsaðstaða forstöðumanns Fjölmenningarseturs er á Ísafirði

Helstu verkefni og ábyrgð

Forstöðumaður Fjölmenningarseturs ber meðal annars ábyrgð á daglegum rekstri þess, að rekstrarafkoman sé í samræmi við fjárheimildir og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Enn fremur að verkefnum Fjölmenningarseturs sem tilgreind eru í lögunum sé sinnt með fullnægjandi hætti.