Rekstri Hólabúðar og 380 Restaurant hætt

Rekstraraðilar Hólabúðar og 380 Restaurant á Reykhólum hafa ákveðið að hætta rekstri frá og með næstu mánaðamótum eftir rúmlega fimm ára rekstur.

Þannig verður lítið um vörupantanir á næstunni og mun því vöruúrval fara minnkandi. Við munum þó reyna að passa uppá að eiga alltaf þessar helstu nauðsynjavörur þar til við lokum segir í tilkynningu frá versluninni.

Eftir að verslunin lokar og ef ekki aðrir taka við verður um klukkustundar akstur í næstu verslun hvort sem farið er til Hólmavíkur eða í Búðardal.

Að sögn rekstraraðila gekk veitingarekstur ágætlega í sumar en verslun yfir vetrarmánuðina er mjög erfið meðal annars vegna þess að íbúum í Reykhólahreppi hefur fækkað verulega að undanförnu.