Fjalldrapi (Betula nana)

Fjalldrapi eða hrís er lítill runni af bjarkarætt og er algengur um mest allt landið nema austan til á Suðurlandi.
Hann finnst töluvert hærra til fjalla en birkið, er allalgengur upp að um 700 m hæð. Hæst fundinn í 850 m hæð í botni Bleiksmýrardals þar sem hann gengur lengst inn í hálendið, í 750 m í Böggvisstaðafjalli við Dalvík, og í 740 og 730 m í Svörturústum og Vesturbugum á Hofsafrétti.

Á láglendi vex fjalldrapinn í fremur deigum hrísmóum eða þýfðum mýrum, og mikið einnig í bland við lyng og víði í mólendi.
Hann er stundum ríkjandi á stórum svæðum þar sem áður hafa verið birkiskógar.

Á hálendinu vex hann einna helst í fremur deigum lyngmóum. Hann þekkist á kringlóttum, gróftenntum, smáum blöðum. Ekki ósjaldan myndar hann kynblendinga við birki sem hafa odd á blöðunum líkt og birki, en blöðin eru minni en á birkinu og runninn er oftast meir eða minna jarðlægur, enn rís þó verulega hærra en fjalldrapinn. Kynblendingurinn er á íslensku nefndur skógviðarbróðir.

Blöð fjalldrapans eru lítil, aðeins 5-12 mm í þvermál, nær kringlótt, dökkgræn ofan en ljósari að neðan, reglulega tennt, stuttstilkuð og fjaðurstrengjótt. Ársprotar hans eru stutthærðir en blöðin hárlaus.

Blómin eru einkynja og sitja í stuttum reklum. Bæði karl- og kvenreklar eru á sömu plöntunni, alsettir þrísepóttum rekilhlífum, og standa þrjú blóm innan við hverja þeirra. Kvenblómin eru með einni frævu með tveim, rauðum stílum í toppinn, karlblómin hafa tvo fræfla með gulum frjóhirslum.
Aldinið er örsmá hneta með vængjum sem hvor um sig er mjórri en hnetan.

DEILA