Bolungarvík: Landsbankinn tilkynnir um lokun útibús

Afgreiðsla Landsbankans í Bolungarvík mun sameinast útibúinu á Ísafirði þann 1. júlí næstkomandi segir í tilkynningu á vef bankans og verður þar með afgreiðslunni í bænum lokað.

Landsbankinn hefur frá árinu 2015 rekið afgreiðslu í Ráðhúsi Bolungarvíkur en bankinn segir að samhliða aukinni notkun á stafrænni þjónustu hafi eftirspurn eftir gjaldkeraþjónustu minnkað mikið.

Bankastarfsemi í bænum má rekja aftur til ársins 1908, þegar Sparisjóður Bolungarvíkur var stofnaður.

Hann var síðan sameinaður Sparisjóði Norðurlands árið 2014 sem Landsbankinn tók síðan formlega yfir 4. september 2015.

Með lokun Landsbankans líkur 112 ára samfelldri starfsemi sparisjóða og banka í Bolungarvík.