Elías Jónatansson, Orkubússtjóri segir að allt kapp sé lagt á að finna viðunandi lausn fyrir næsta vetur varðandi varaafl fyrir Flateyri, en í vetur hefur það verið ófullnægjandi.
„Nokkrar leiðir hafa verið til umræðu hjá Orkubúinu til að treysta afhendingaröryggið á Flateyri. Unnið er að hönnun á breytingum á dreifikerfinu til að hægt sé að nýta betur þær virkjanir sem fyrir hendi eru í Önundarfirði, sem varaafl ásamt varaaflsvél, en einnig er verið að skoða möguleika á stærri varaaflsvél.“
Þá segir Elías að „Orkubúið er vel meðvitað um tillögur starfshóps sem skipaður var af forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að treysta atvinnulíf og búsetu á Flateyri. Hópurinn leggur til að auka afhendingaröryggi rafmagns á Flateyri með því að öflugri varaaflsstöð verði sett upp á Flateyri, eins og kemur fram í greinargerð hópsins. Fulltrúar Orkubúsins áttu vinnufund með nefndinni áður en hún skilaði sínum tillögum og kom umrædd tillaga nefndarinnar þar m.a. til umræðu sem hugsanleg lausn.“
Niðurstaða liggur ekki fyrir á þessari stundu en að sögn Elíasar leggur stjórn OV áherslu á að viðunandi lausn verið fundin fyrir næsta vetur.