Hótel Látrabjarg stefnir fiskeldinu fyrir dóm

Hótel Látrabjarg ehf í Örlygshöfn og eigendur þess, þau Karl Eggertsson og Sigríður Huld Garðarsdóttir í Reykjavík hafa stefnt Arnarlaxi , Arctic Sea Farm og Matvælastofnun fyrir dóm og krefjast þess að rekstrarleyfi eldisfyrirtækjanna fyrir sjókvíaeldi í Tálknafirði og Patreksfirði, sem Matvælastofnun gaf út í ágúst í fyrra, verði felld úr gildi.

Hagsmunum kærerenda er svo lýst að Hótel Látrabjarg byggi starfsemi sína á fegurð  óspilltrar  náttúru og fuglalífi sem gestir hótelsins njóti. Rekstur fiskeldisstöðva í firðinum skammt frá hótelinu raski lögvörðum hagsmunum eiganda til þess að stunda atvinnurekstur sinn, njóta arðs af fjárfestingum og hagnýta sér viðskiptavild sína.

Þá eigi stefnendur jörðina Vatnsdal skammt innan til við Örlygshöfn. Um dalinn renni á Vatnsdalsá og í hana gengur sjóbirtingur. Fiskeldið skammt utan netlaga jarðarinnar raski lögvörðum hagsmunum eigendanna til að njóta  næðis, útivistar, útsýnis og sjávarfangs á jörð sinni og til að nýta hana til veiða á sjóbirtingi í Vatnsdalsá.

Telja kærendur að hagsmunir þeirra njóti verndar stjórnarskráinnar og 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu og falli auk þess undir verndarhagsmuni laga nr 106/2000 og laga nr 71/2008.

Fyrst og fremst eru dómkröfunum beint gegn ríkinu, það er Matvælastofnun og krafist ógildingar á opinberri ákvörðun stofnunarinnar um útgáfu leyfis.

Kærendur telja umhverfismatið ófullnægjandi þar sem ekki hafi verið gerður raunhæfur samanburður á valkostum öðrum en sjókvíaeldi. Í öðru lagi telja kærendur að óheimilt hafi verið að gefa út rekstrarleyfið þar sem af fiskeldinu stafi sjúdómahætta og það hafi óæskileg áhrif á vistkerfið og í þriðja lagi er fullyrt í stefnunni að eldisfyrirtæki hafi ekki heimild til afnota af hafsvæði innan landhelgi Íslands.

Kærendur hafa áður lagt fram svipaða kæru til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál án árangurs. Er málið flutt að nýju breytt og nú fyrir dómstólum.

Sigríður Huld vildi ekki ræða við Bæjarins besta en Karl Eggertsson vísaði til stefnunnar um rökstuðning. Nefndi hann að þörungablómi og drulla fylgdi fiskeldinu fyrir framan dalinn þeirra. Karl sagði málið vera hættulegra fyrir Ísland en fram kæmi í stefnunni. Það væri verið að afhenda erlendum aðilum firðina. Þá væru fengsælustu fiskimiðin fyrir utan og fiskeldið gæti haft áhrif á þau. Laxeldinu fylgdi svo orðsporsáhætta, þar sem, að sögn Karls, laxeldið hefði ekki gott orð á sér.

DEILA