Jólin 1925 á Dynjanda

Jólin 1925 verða mér fyrir margra hluta sakir ógleymanleg. Ég var þá 9 ára gamall og man vel eftir jólaundirbúning og jólahaldi. En best man ég eftir gamla torfbænum sem við systkinin vorum öll fædd í en sennilega man ég þau þó best fyrir það að þetta voru síðustu jólin okkar í þessum gamla og fallega bæ því vorið eftir var hann rifinn og annar byggður í staðinn.

Áður en ég  lýsi jólunum ætla ég að lýsa þessum bæ fyrst. Þegar maður kom heim á hlaðið blöstu við manni burstamynduð þil. Fyrst kom hús sem hét Hjallur, í honum voru þurrkuð föt og hertur fiskur. Báðir gaflar hans voru úr trérimlum. Næst kom svo baðstofan, gafl hennar var klæddur með tjörupappa æa honum voru 2 gluggar, annar 4 rúðna og var hann á stofunni. Hinn 6 rúðna og var hann á baðstofunni þar sem allt fólkið svaf.

Næst var gangþil, svo búrþilið. Í því húsi voru öll matvæli geymd og síðast skemmuþilið, þar voru geymd öll verkfæri, hnífur og orf, reiðingar og þar var allt smíðað og gert við sem aflaga fór. Þar var og geymt saltkjöt til heimilisins.

Þegar maður gekk inn í bæinn opnaði maður hurð sem var á gangþilinu og kom þá inn í löng göng. Þau munu hafa verið um 8 metra löng, rétt fyrir innan útidyrnar komu dyr til hægri og var þar inngangur í búrið. Í því var geymt allur mjölmatur og allur súrsaður matur, voru þar 2 stórar tunnur með blóðmöri. Þarna var og stórt ílát sem kallaður var sár hann hefur verið á við 2 tunnur að stærð og hann var heldur lægri en tunna en geysilega víður. Hann var geysi gamall og girtur með svigagjörðum og lokið neglt með koparnöglum. Í honum var alltaf súrsað í súru skyri sem þynnt var með drukk.

Rétt innan við búrdyrnar vinstra megin komu dyr inn í stofuna. Þetta var lítið herbergi málað í ljósbláum lit en loftið hvítt. Ég man sérstaklega vel eftir hurðinni. Þetta var gömul skipshurð. Fyrst kom rammi sem skipt var í þrennt með 2 þverrimlum í hvorn reit, kom svo spjald sem var þykkt í miðjunni og þunnt til jarðanna sem gengu inn í rammann. Spjöldin voru blá en ramminn hvítur en mest man ég þó eftir húnunum. Þeir voru úr kopar og í laginu eins og egg nema miklu stærri.

Þegar maður kom lengra inn í ganginn komu dyr til hægri og var þar gengið inn í hlóðareldhúsið. Þar var allt hangikjöt reykt og magálar og þar var geymd kæfa sem sett hafði verið í skinnbelgi og var hún ákaflega góð þegar reykingarbragð fór að koma af henni. Þarna voru hlóðir sem gríðarstór pottur stóð á en í  honum var soðið allt slátur og eins hangikjötið til jólanna.

Rétt fyrir innan komu dyrnar inn í eldhúsið og vinstra megin þegar komið var inn var stiginn upp á loftið. Í eldhúsinu var gömul eldavél, 1 langt borð og skápar undir matarílát og potta. Bekkur var þar sem vatnsílátin voru. Var það nokkuð stór tunna og var það verk okkar bræðranna að sækja vatnið. Hurðin fyrir eldhúsinu var nokkuð sérstæð í öðrum dyrastafnum var gat sem hjól var í, þar var dregið snæri í gegn fest efst í hurðina. Í hinn endann sem dreginn var í gegnum dyrastafinn var festur nokkuð stór steinn. Þegar opnað var dróst steinninn upp og dró svo hurðina til baka. Kom þá stór skellur og var hurðin því kölluð skellihurð.

Rétt um mið göngin var hella sem var þannig sett niður að hún hreyfðist þegar stigið var á hana svo það heyrðist alltaf þegar gengið var um göngin.      Þegar komið var upp á loftið var skilrúm, til vinstri handar var baðstofunni skipt í tvennt. Þar sem uppgangurinn var voru 2 rúm sitt undir hvorri hlið. Í þeim var ekki sofið og var þar geymd ull sem vinna átti, fyrir aftan annað rúmið og yfir að milliþilinu var nokkuð stórt pláss. Þar voru geymdir sokkar, kampur, snældustólar og hesputré.

Þegar komið var inn fyrir milliþilið var komið inn í aðal baðstofuna. Þar voru 6 rúm, 3 undir hvorri hlið, innsta rúmið til hægri var rúm foreldra minna. Á móti þeim svaf ein systir mín fyrir aftan hana svaf önnur systir mín og yngri bróðir minn, þá 8 ára. Á móti þeim voru svo 2 yngri systur mínar. Þar fyrir aftan eldri bróðir minn á móti honum var svo amma mín og ég. Ég svaf hjá henni til 11 ára.

Ég hef nú lýst að nokkru æskuheimili mínu fyrir 50 árum. Ég mun alltaf minnast þess með þakklæti og söknuði, þó líf sveitadrengs á þeim árum væri tilbreytingalítið og viðburðarsnautt. Þó komu stundir sem við hlökkuðum til og nutum þegar þær komu og voru jólin okkar mesta tilhlökkunarefni og gleðihátíð. Snemma á jólaföstu fórum við að telja dagana. til jóla. Í vikunni fyrir jól var farið í kaupstað sem var út á Bíldudal. Pabbi og eldri bróðir minn fóru og bóndinn á næsta bæ, Borg. Hann hét Þórður, þá var enginn mótorbátur, heldur var farið á árabát. Það var 3 tíma verið að róa hvora leið, þá var keypt til jólanna.

Það sem ég man eftir að var keypt voru rúsínur, sveskjur, súkkulaði, ávextir og kerti. Eitthvað fleira sem ég man nú ekki eftir. Tveimur dögum fyrir þorláksmessu var allt þvegið í baðstofunni og tók það 2 daga. Á þorláksmessu var alltaf borðuð skata og þá var búr og eldhús og gangur vandlega sópuð. Svo kom aðfangadagurinn. Strax eftir hádegi fór pabbi út í hlóðareldhús og tók niður hangikjötið og brytjaði niður.

Amma mín sauð það en mamma eldaði grautinn sem var þykkur grjónagrautur með rúsínum í. En eldri systur mínar skiptu um á öllum rúmum því á jólunum varð allt að vera hreint. Kl. 6var búið að gefa kúnum og láta féð í hús. Þá þvoðu allir sér og fóru í hrein föt. Svo var jólaguðspjallið lesið og pabbi las úr Vítalínsposstillu.

Kl. 7 var borðað og hverjum manni skammtað á disk, hangikjöt, hveitikaka og smjör. Þegar búið var að borða komu jólagjafirnar. Ég man hvað við yngri bræðurnir fengum og voru það sokkar, nýir skinnskór og hvítum eltiskinnbryddingum, 4 kerti og 1 epli. Ekki var neitt jólatré. Kl. 10 var drukkið súkkulaði og jólakaka. Eftir það var farið að hátta því það mátti ekki spila á aðfangadagskvöldið. Við strákarnir máttum kveikja á kertunum. Á jóladag fórum við í nýju sokkana og skóna. Það var aftur borðað hangikjöt og þykkur grjónagrautur og drukkið súkkulaði og kaffi. Þá máttum við líka spila. Við krakkarnir spiluðum marías og hjónasæng og eitthvað fleira. Fullorðna fólkið spilaði vist. Húslestur var lesinn á jóladag og eins á annan í jólum. Annar í jólum var alveg eins og jóladagurinn og voru þá jólin búin.

Ég hef nú sagt frá æskujólunum mínum í helstu dráttum. Margt ósagt enn ég var 9 ára síðan eru liðin 50 ár. Margt hefur breyst síðan og þegar ég lít til baka kemur eftst í hugann fögnuður og þakklæti til þeirra mörgu sem hafa hjálpað mér og eru vinir mínir að endingu set ég þessa stöku:

 

Lækkar lífdaga sól

löng er orðin mín ferð.

Fauk í farnanda skjól

fegin hvíldinni verð.

 

Guð minn gefðu þinn frið

gleddu og blessaðu þá

sem að lögðu mér lið

Ljósið kveiktu mér hjá.

 

Guðmundur Kr. Jónsson frá Dynjanda

frásögnin er frá 1975.

DEILA