Vestfirska vísnahornið 7.nóvember 2019

Veturinn er formlega genginn í garðsamkvæmt fornu tímatali.

Indriði á Skjaldfönn orti um vetrarkomuna:

 

 

Næða kalt um nef ég finn,

nú er í frosti töggur.

Vertu bara velkominn

vetur,gamli skröggur.

 

 

Jón Atli Játvarðsson yrkir um hundinn Samson sem Dorrit fyrrverandi forsetafrú lét klóna. Jón Atli spurði : “Er klónnin bara uppvakningur? Vonandi ekki. En gæti klónninn hugsað svona? Vonandi ekki.“

 

Ég er stelling og birtu-blá,
sem blæs í hrellings rykið.
Þú ert kelling, þig ég á
það er hellings mikið.

 

Indriði lagði líka orð í belg, var mátulega hrifinn af uppátækinu og kom með uppástungu:

Aðdáun ég enga finn

né ást til rakkatetra,

en ef hún klónar Ólaf sinn

er það mikklu betra.

 

 

Reir frá Drangsnesi velti fyrir sér annarri spurningu um sama efni:

 

Máske er ég mesta flón
mín og talin færni sein
en er það satt að kerling klón
keypti til að naga bein?

 

Jón Atli og Indriði á Skjaldfönn hafa sent hvor öðrum kveðjur enda ekki sammála um sum heit deilumál. Einkum greinir þá á um virkjun Hvalár. Er Jón Atli fylgjandi en Indriði andsnúinn. Jón Atli orti og sendi Indriða smásneið og í leiðinni læknum tveimur að sunnan sem hafa haft sig í frammi gegn Hvalárvirkjun:

Út með kinnum Kaldalóns,
karl einn hrúta saknar.
Er að hugsa um afglöp Jóns,
alltaf þá hann vaknar.

Stöðugt Jón nú ströglar við
að standa í báða fætur.
Sér í gegnum sauðþrátt lið
sem á engar rætur.

Skal því virkja vatn sem orð
og viðbúnaðinn tryggja.
Undir kíkja yfirborð
og ekki flatur liggja.

Því skal varast vondan hóp
í vesöld þraut og pínum.
Leggjast ekki í læknadóp
og lygna augum sínum.

 

Indriði svaraði Reykhólajarli, sem hann kallar, en það er auðvitað Jón Atli:

 

Enþá hnoðar Atli Jón.

Afskaplega döpur sjón.

Líkist æ meir öldnum glópi,

uppfullum af læknadópi.

 

Og bætti svo við annarri:

 

Jón minn ennþá ruglar rugl.

Reykhólanna skrítni fugl.

Óvíst er með öllu nú

að hanns læknist heilabú.

 

 

 

Indriði kom nú með bragarbót og spáði vel fyrir Jóni Atla eða hvað. Vísan heitir: Öfugmælavísa?

 

Oft nú gaman er að Jóni.

Allra besta skáld á Fróni.

Seint mun bogna Besserwissinn.

Bráðum hlýtur Nóbelsprísinn.

 

Hagyrðingar hafa skemmt sér við að enduryrkja vísuna Afi minn fór á honum Rauð í ýmsum tilbrigðum, eins og sagt hefur verið frá hér í vestfirska vísnahorninu. Indriði kom með þá nútímauppfærslu að yrkja líka um ömmu.

Hér er ein ný limra frá Indriða, sem hann nefnir vesalings amma.

 

Amma er alveg æði.

Afi á gráu svæði

tók ákvörðun skakka

eignaðist krakka

og búinn að selja Bakka.

 

Og önnur útgáfa með botni frá Ólu Friðmey Kjartansdóttur, bónda á Þórustöðum í Bitrufirði:

 

Afinn horfinn, amman dauð,

ekki´ er það í lagi,

Aldrei fékk hann afi brauð

Frá ömmu, það ég sæi.

 

Látum þetta duga að sinni.

Með góðum vetrarkveðjum,

Kristinn H. Gunnarsson.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

DEILA