Merkur áfangi í Ísafjarðarbæ

Merkum áfanga var náð nú í dag þegar að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti að bjóða út hönnun og byggingu nýs fjölnota íþróttahúss. Húsið á að standa á gervigrasvellinum og verður s.k. hálft hús sem samsvarar um hálfum fótboltavelli. Þetta er ánægjulegur áfangi enda hefur umrætt hús verið helsta forgangsatriði íþróttahreyfingarinnar s.l. 15 ár eða svo. Gangi áætlanir eftir verður það tekið í notkun á næsta ári.

400 m.kr. framkvæmd

Húsið mun verða kærkomin viðbót við önnur íþróttamannvirki bæjarins og mun létta til mikilla muna á þéttsetnum íþróttahúsum bæjarins. Gert er ráð fyrir að meginhluti hússins verði þakinn gervigrasi en einnig er gert ráð fyrir hlaupabrautum. Í útboðsskilmálum er gert ráð fyrir að það megi ekki kosta meira en 380 m.kr. en til viðbótar sér Ísafjarðarbær um jarðvinnu og hægt er að sækja um styrki fyrir hluta byggingarkostnaðar. Það þýðir að komi viðunandi tilboð verður heildarkostnaður við framkvæmdina um 400 m.kr. Það er vel gerlegt og verður bæjarsjóði ekki um of. Allt tal um annað á ekki við rök að styðjast.

Lyftistöng fyrir samfélagið okkar

Þegar að húsið verður risið verður það gríðarleg lyftistöng fyrir samfélagið okkar. Um er að ræða stærstu einstöku framkvæmd íþróttamannvirkis síðan að íþróttahúsið á Torfnesi var tekið í notkun fyrir um 30 árum. Það er líka ágætt að setja þessa byggingu í samhengi við það hús. Þegar að það var byggt höfðu bæjarbúar beðið í áratugi eftir því að fá sambærilegt íþróttahús og þau sveitarfélög sem við berum okkur saman við. Í dag efast enginn um ágæti þeirrar byggingar þó að hún hafi verið umdeild á sínum tíma og miklu stærri fjárfesting en nú á að fara í. Ég er sannfærður um að bæjarbúar eiga eftir að vera sama sinnis eftir 30 ár þegar að þeir líta til baka á þessa framkvæmd.

Byggjum fyrir börnin okkar

Í þeim sveitarfélögum sem hafa byggt svona mannvirki er mikil ánægja með þau. Svo verður einnig hér og með henni erum bið að búa börnunum okkar miklu betri aðstöðu til hvers konar íþróttaiðkunar. Megin notendur hússins eru jú börn.

Þess vegna eigum við að vera stolt af þessari framkvæmd. Stolt yfir því að við getum þetta, stolt yfir því að geta boðið börnunum okkar upp á þetta og stolt yfir því að við séum að sækja fram og sýna þannig að við höfum trú á samfélagið okkar.

 

Daníel Jakobsson

Höfundur skipar 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn.