Þrjátíu atriði voru á dagskrá Act Alone þetta árið

Elfar Logi Hannesson og Dimmalimm á Act alone 2019.

Sextándu Act Alone einleikjahátíðinni lauk á laugardagskvöldið á Suðureyri með tónleikum hins ástkæra söngvaskálds Magnúsar Þórs Sigmundssonar. Undir tók í Félagsheimili Súgfirðinga þegar heimamenn og gestir sungu lagaperlur Magnúsar sem löngu eru orðnar þjóðinni kærar. Hátíðin sem stóð í þrjá var að venju mjög fjölbreytt og glæsileg, þjóðleg og alþjóðleg.  Á hátíðinni var boðið uppá myndlist, leiklist, tónlist, dans, þjóðlegan fróðleik, látbragðsleik, útileiki, bókmenntir og lófalestur og er þá enn sitthvað ótalið. Flest atriði voru mjög vel sótt og félagsheimilið fylltist öll kvöldin. Þar mátti sjá andlit frá öllum byggðum Ísafjarðarsýslu, auk fjölmargra gesta víðar að af landinu og utanlands.

Það er leikarinn, leikstjórinn og rithöfundurinn Elfar Logi Hannesson sem stofnaði Einleikjahátíðina árið 2004 og hefur staðið í stafni hennar alla tíð síðan. Í fyrstu var hátíðin að mestu á Ísafirði, en síðustu árin hefur hún átt sitt lögheimili á milli fjallanna á Suðureyri við Súgandafjörð. Knár hópur dyggra aðstoðarmanna kemur árlega til starfa fyrir hátíðina og fjöldi listamanna sem fram hefur komið skiptir hunduðum. Á dagskrá hátíðarinnar í ár voru 30 atriði.

Sú nýbreytni var tekin upp á hátíðinni þetta árið að útskriftarnemum þessa árs frá Listaháskóla Íslands sem eiga uppruna sinn á Vestfjörðum var boðið að koma fram og kynna list sína. Átta ungir listamenn sem eiga ætt og uppruna á Vestfjörðum komu fram á hátíðinni og fengu Þurrkverið undir sýningar sýnar. Þar mátti njóta fatahönnunar, skúlptúra, leiklistar og tónlistar. Vonandi verður framhald á þessu. Merkilegt má heita hversu margir nemendur Listaháskólans koma úr þessum landshluta, en þeir voru alls tíu þetta árið.

Act alone lauk með tónleikum Magnúsar Þórs Sigmundssonar.
Gestir Act alone fylltu Félagsheimilið Súgandafirði öll kvöldin.
DEILA