Ögurball á laugardaginn

Dansgólfið svignar undan dansinum - en brotnar ekki.

Hið árlega Ögurball verður haldið í Ögri við Ísafjarðardjúp þann 20 júli næstkomandi. Ögurballið er haldið af Ögursystkinunum sem hafa staðið fyrir þessum viðburði fá árinu 1998

Hverjum aðgöngumiða fylgir tjaldstæði og frægur rabarbaragrautur en það er gömul hefð þar sem það þótti mjög viðeigandi eftir ballið í gamla daga að gefa fólki rabarbaragraut með rjóma áður en haldið var til síns heima.

Gleðin byrjar strax á föstudeginum hádeginu en þá er hægt að panta skötuveislu í Samkomuhúsinu.

Pantanir fyrir 15 júlí í síma 857 1840 og á netfang ogur@ogurtravel.com

Föstudagskvöldið verður haldið PUB QUIZ og eru allir velkomnir, stórglæsilegir vinningar og frábær félagsskapur.

Laugardagurinn:

Söguganga um Ögurvíkina klukkan 10, allir velkomnir og endar í Ögurkirkju.
Messa klukkan 11 í Ögurkirkju. Séra Ásta Ingibjörg Pétursdóttir sóknarprestur og séra Hjálmar Jónsson fyrrv. Dómkirkjuprestur messa.
Krakkaball í samkomuhúsinu í Ögri klukkan 16:00.

Andlit Ögurballsins 2019 er Andrea Gylfadóttir Vestfirðingur með meiru.

Andrea er mikill unnandi íslenskrar tónlistar og sveitaballa og telur sig vera fædda á kolröngum tíma, og þar af leiðandi misst af gullöld sveitaballamenningarinnar.

Mikil hefð var fyrir þessu fornfræga balli í fyrri tíð en þá gerðu nærsveitungar sér ferð í Ögur, oftast á hestbaki eða fóru sjóleiðina og dönsuðu fram á rauða nótt í samkomuhúsinu en ,,dansiballamenningin“ er í það minnsta jafn gömul húsinu sem byggt var árið 1926. Dansleikir lágu niðri niðrum um árabil en mörgum til mikillar gleði var hefðin endurvakin og fyrir vikið er Ögurballið einn vinsælasti viðburður sumarsins.

Aldurstakmark á dansleikinn er 18 ár en allur ágóði rennur óskiptur til viðhalds, reksturs og uppbyggingar samkomuhússins í Ögri sem er gamalt ungmannafélagshús, byggt 1926.

Ögurballið er vel sótt.
Strandseljabóndinn er traustur dyravörður. Hann er til vinstri á myndinni.
Rabbabaragrautur er á boðstólum.
Halli og Þórunn spila fyrir dansi 20. árið í röð.
DEILA