Ísafjarðarbær hafnar að greiða eingreiðslu 1. ágúst

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar  ræddi á fundi sínum í vikunni erindi frá Finnboga Sveinbjörnssyni, formanni Verkalýðsfélags Vestfirðinga þar sem skorað var á sveitarfélagið að semja við Starfsgreinasamband Íslands um sömu eingreiðslur og aðrir starfsmenn sveitafélaganna munu fá þann 1. ágúst nk. sem greiðslu inn á væntanlega kjarasamninga eða taka að öðrum kosti sjálfstæða ákvörðun um að greiða sínu fólki inn á væntanlegan kjarasamning til jafns við annað starfsfólk.

Tilefnið er að félagsmenn SFG fá ekki þá eingreiðslu 105 þúsund krónur sem samninganefnd sveitarfélaganna hefur samið um við aðra viðsemjendur. Ríkissáttasemjari hafði lagt til að sveitarfélögin greiddu eingreiðsluna en samninganefnd sveitarfélaganna hafnaði tillögunni með þeim rökum að SFG hefði víðar kjaradeilunni til ríkissáttasemjara.

Bæjarráðið féllst ekki á erindið og bókaði: „Samningsumboð Ísafjarðarbæjar er hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, en við sýnum sjónarmiðum Verkalýðsfélags Vestfirðinga skilning.“

DEILA