Ásgeir Guðjón Ingvarsson – aldarminning laugardaginn 3. ágúst

Ásgeir Guðjón Ingvarsson.

Laugardaginn 3. ágúst kl. 16:30 verður dagskrá í Dalbæ á Snæfjallaströnd til að heiðra aldarminningu Ásgeirs Guðjóns Ingvarssonar (1919-1989) tónskálds, textahöfundar, tónlistar- og myndlistarmanns.

Ásgeir var fæddur á Hamri í Nauteyrarhreppi, en fluttist ungur í Snæfjallahrepp með foreldrum sínum, Salbjörgu Jóhannsdóttur og Ingvari Ásgeirssyni og þar ólst hann upp. Fjölskyldan bjó fyrst í Hólhúsinu í Bæjum, síðan í Unaðsdal og loks á Lyngholti þar sem Ásgeir lærði að lesa nótur og spila á orgel hjá Þorgerði Sveinsdóttur, systur Ásmundar myndhöggvara. Tólf ára gamall var Ásgeir farinn að spila á orgelið í Unaðsdalskirkju. Ásgeir dvaldi um skeið á Ísafirði og tók þar þátt í tónlistarlífi, fór að spila á gítar og semja lög og gamanvísur.

Lengst af bjó Ásgeir í Kópavogi þar sem hann vann sem tækniteiknari og mælingamaður. Ásgeir tók ríkan þátt í tónlistarstarfi, m.a. með Alþýðukórnum sem Sigursveinn D. Kristinsson stofnaði, en Ásgeir stjórnaði kórnum um tíma og samdi texta við mörg lög sem kórinn flutti. Hann gerði marga texta fyrir Sigursvein, Ríó tríó, Jónatan Ólafsson og fleiri. Ásgeir hafði sérstakt dálæti á írskri þjóðlagatónlist og var heiðursfélagi í Vísnavinum ásamt Ása í Bæ og Jónasi Árnasyni. Sumt af lögum og textum Ásgeirs var gefið út en margt er enn óútgefið.

Í Dalbæ verða bæði tónleikar og sýning á úrvali myndlistarverka Ásgeirs sem var um margt framúrstefnumaður í myndlistinni þó megnið af myndum hans séu kunnugleg mótív. Meðal þátttakenda á tónleikunum verða Þorvaldur Örn Árnason og fleiri sem voru í tónlist með Ásgeiri um 1980 ásamt fríðum flokki tónlistarfólks úr fjölskyldu- og vinahópi Ásgeirs, m.a. Arnór Ingi Ingvarsson, sonarsonur Ásgeirs og Jón Hallfreð Engilbertsson, bróðursonur hans. Einnig mun Engilbert Ingvarsson yngri flytja lag eftir Sigvalda Snæ Kaldalóns og loks mun Heiðrún Kristín Guðvarðardóttir sópran flytja lög eftir Sigvalda Kaldalóns. Uppbyggingarsjóður Vestfjarða styður við verkefnið.

Ásgeir með systkinum sínum og móður.
DEILA