Vestfirska vísnahornið 23. maí 2019

Horft út Ísafjarðardjúp. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Vísnahornið er vísnabréf innan úr Skjaldfannardal og það er Indriði bóndi sem hefur skrifað hjá sér í önnum sauðburðarins:

Vorið hefur til þessa verið með eindæmum gott og gróður fljótur á skrið. Aðeins einu sinni  smáfrostvottur undir morgun og sporrækt tvisvar smástund. Þá varð þessi vísa til:

Um kindur mínar kuldahrollur fer

því kannski rekur vorið upp á sker

en sunnanáttin skilar sér sem skot

og skútu vorsins aftur nær á flot.

 

Síðan 2011 hefur Eiríkur Jónsson, nú á Grænhóli á Barðaströnd áður lengi formaður KÍ verið máttarstólpi á sauðburði hér. Gífurlegt álag er á þessum tíma á fjárbændum og í fyrradag var ástandið á bænum að sögn Eiríks svona:

Indriði er lagstur lúinn.

Liggur upp í rúmi búinn.

Kötturinn til fjalla er flúinn.

Fjármaðurinn trausti rúinn.

Þriðju hendingunni til skýringar er það að kettinum og Eiríki hefur ekki enn tekist að mynda vináttusamband. Fjórða hendingin er svo tilhæfulaus en ég varð auðvitað að bregðast við fyrri parti vísunnar.

Erfiðleikar í þó rífi

eg vil þetta segja:

Indriði er enn á lífi

og ekki neitt að deyja.

 

Þá er það forsætisnefnd Alþingis og Þórhildur Sunna sá magnaði pírati.

Hún ógnar með ásökun grófa

er illa við skítmenni og þjófa

en forsætisnefnd

hyggur á hefnd

fyrir Ása ökugjaldsbófa.

 

Svo sá Eiríkur Pál þingmann Magnússon í Silfrinu og gat ekki orða bundist:

Hann er sannur sjalli

sígjammandi Palli

Brjóst og barka reigir

bestur er hann þegir.

 

Eins og áður er raunar fram komið er ekki í kot vísað með Eirík sem sauðburðarmann.

Ennþá gerast ævintýr.

Eiríkur á Skjaldfönn býr.

Blæs þar lífi í lömbin hýr.

Lullar ekki í fyrsta gír.

 

Á vaktinni hjá Eika er

ægilegur gangur.

Þegar eitthvað út af ber

er hann fingralangur.

 

Það hugsa orðið fáir hlýlega til Alþingis eða eiga þangað mikið traust að sækja.

Alþingi er aumur staður.

afdrep fyrir heimskuþvaður.

Alger sönnun apasiðar

Ásmundur og Klausturliðar.

 

Klausturmanna mælsku list

mjög er depurð hvetjandi

Þeir eru bara innst sem yst

ekki á vetur setjandi.

 

Síðan má ekki gleyma þjóðarógæfunni:

 

Engeyinga ættin fer

endalaust í taugar mér

skara eld að eigin hag

orkumiklar, nótt sem dag.

 

Þessi umrædda ætt er að tölfróðustu manna sögn búin að fá afskrifaða 130 milljarða króna. Það hafa nú einhverjir verið fálkakrossaðir fyrir minna.

 

Heimur versnandi fer hefur löngum verið haft á orði og nú verður mannkynið að fara að horfast í augu við staðreyndir.

Lífsmátinn sem við lifum á

ljóta falleinkunn virðst fá

misskipting,  græðgi og Trumpatal

teymir okkur í skuggadal.

 

Látum hér svo staðar numið með vorlimru:

 

Lömbum er létt um sporið

leika sér inn í vorið

við fuglanna söng

í fjallanna þröng

og brátt er það síðasta borið.

Lýkur hér bréfinu og eins og niðurlagð ber með sér er sauðburði að verða lokið.

Látum þetta vera gott að sinni.

Með góðum vorkveðjum í vestfirskri blíðu.

Kristinn H. Gunnarsson

 

DEILA