Nýr heimsklassa diskur frá Rähni hjónunum

Kominn er út nýr geisladiskur með Selvadore og Tuuli Rähni, Eistneskum hjónum sem búa í Bolungavík þar sem Selvadore er skólastjóri Tónlistarskólans.

Diskurinn nefnist Premiére Rhapsodie og er með franskri klarinett músik. Selvadore leikur á klarinett og Tuuli á píanó.

Geisladiskurinn er seldur víða um heim, en einnig er hægt að kaupa hann beint frá Selvadore og Tuuli Rähni, netfang: rahni@simnet.is, sími 863 5286.

Selvadore er einn þekktasti klarínettleikari Eistlands. Hann er fæddur í Tartu í Eistlandi.

Hann er með meistara- og doktorsgráðu frá Þýskalandi og hefur komið fram sem einleikari víða í Evrópu og Japan í borgum eins og Berlín, Stuttgart, Karlsruhe, Tallinn, Pärnu, Tarragona, Moskvu, Kyoto, Osaka og Tókíó. Alls staðar hefur hann fengið mikið lof en notið hvað mestrar viðurkenningar í Japan.

Hann er vel metinn hljómsveitarleikari og hefur leikið einleik sem gestaleikari með mörgum þekktum hljómsveitum, þar á meðal með Kammersveit Pforzheim og Württemberg, Pólsku og Tékknesku kammersveitinni, Sinfóníuhljómsveit Eistlands, alþjóðlegri hátíðarhljómsveit Yamanami og Osaka hátíðarhljómsveit.

Selvadore er einnig tónskáld og árið 2010 gaf hann út albúm með píanóverkum sínum.

Síðan 2005 hefur Selvadore búið á Íslandi og frá 2010 hefur hann verið skólastjóri Tónlistarskólans í Bolungavík.

Tuuli Rähni stundaði píanónám 1986 – 1991 við Tónlistarháskólann í Tallinn (í dag Eistneska Tónlistarakademían) hjá prófessor Peep Lassmann sem var fyrrverandi nemandi Emil Gilels við Tónlistarháskólann í Moskvu. Hún hefur lokið tveimur meistaragráðum frá Tónlistarháskólanum í Karlsruhe í Þýskalandi, í píanóleik og píanókammertónlist.

Jafnframt var hún píanómeðleikari í Tónlistarháskólanum í Tallinn.

Tuuli var deildastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar á Þingeyri og píanóleikari hjá Sunnukórnum, en er nú píanó-og söngkennari í Tónlistarskóla Bolungarvíkur og organisti við Ísafjarðarkirkju.

Í rúma tvo áratugi hefur Tuuli spilað kammertónlist ásamt eiginmanni sínum Selvadore Rähni klarínettleikara.

Jón Páll Hreinnson, bæjarstjóri í Bolungavík, sem var um tíma formaður Tónlistarfélags Ísafjarðar, segir að diskurinn sé á heimsmælikvarða, enda sé þau heimsklassa tónlistarfólk  og forrréttindi að hafa þau hér í Bolungarvík.

 

 

DEILA